Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram á laugardaginn um land allt

13.09.2021

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram á laugardaginn 11. september, í 32. sinn. Frábært hlaupaveður var víðast hvar um landið  þátttaka var með ágætum. Þátttakendur geisluðu af orku og krafti en hlaupð var á hátt í 60 stöðum um allt land sem og erlendis. Að vanda var boðið upp á mismunandi vegalengdir eða allt frá 900 m upp í 10 km. Mikil og góð stemning var hjá þátttakendum, ungum sem öldnum og gleði og kátína skein úr hverju andliti. Þátttakendur á öllum aldri komu saman og áttu skemmtilega stund þar sem sumir hlupu en aðrir gengu.

Í 32 ár hafa þúsundir kvenna um allt land notið þess að hreyfa sig saman í Kvennahlaupinu og í því hafa konur getað sameinað tvo mikilvæga þætti í lífinu, hreyfingu og samveru. Fyrsta Kvennahlaupið var haldið 30. júní árið 1990 í Garðabæ og var það haldið í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Lovísa Einarsdóttir kom með hugmyndina frá Finnlandi og þótti við hæfi að bjóða upp á eitthvað nýtt sem höfðaði til almennings á Íþróttahátíðinni.

Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og lögð er áhersla á að allir komi í mark á sínum hraða og með bros á vör. Í dag er áherslan ekki hvað síst á samstöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum forsendum og eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum. Hlaupið er árviss viðburður hjá mörgum konum sem taka daginn frá til að hlaupa með dætrum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vinkonum sínum og margir karlmenn slást líka í hópinn.Mjög algengt er að margir ættliðir, vinkonur eða systur fari saman í hlaupið og geri sér jafnvel glaðan dag saman að hlaupi loknu. Kvennahlaup nútímans snýst um hreyfingu sem hentar hverjum og einum, samveru kynslóðanna, líkamsvirðingu, sanngirni, umhverfismeðvitund og valdeflingu.

Kvennahlaupsbolurinn

Nokkrar áherslubreytingar voru gerðar á hlaupinu 2020, umhverfisvitund og félagsleg ábyrgð sett á oddinn og öll framkvæmd hlaupsins skoðuð í kjölinn. Eftir að 30 ára afmæli Kvennahlaupsins var fagnað með pompi og prakt árið 2019 var ákveðið að gera breytingar á framkvæmd þess. Þær eru fyrst og fremst gerðar með tilliti til umhverfissjónarmiða, samhliða því að reyna að höfða til yngri kynslóða. ÍSÍ taldi ekki lengur ásættanlegt að bjóða upp á mörg þúsund boli sem hver og einn er pakkaður í plast og ekki með umhverfisvottaða framleiðsluhætti. Bolurinn eru því nú hannaður bæði sem íþróttabolur en einnig sem hversdagsflík og nýtist þannig betur, bæði eigendum og umhverfi, og er sami háttur hafður á í ár. Bolirnir eru framleiddir á ábyrgan hátt með velferð umhverfisins að leiðarljósi. Bolurinn undirstrikar mikilvægi þess að gera hlutina SAMAN með einkennisorð hlaupsins í öndvegi.

Hér eru myndir frá hlaupinu á myndasíðu ÍSÍ

Myndir með frétt