Snæfríður Sól bætti eigið met í Tókýó
26.07.2021
Snæfríður Sól Jórunnardóttir sló sitt eigið Íslandsmet í 200 metra skriðsundi í morgun með frumraun sinni á Ólympíuleikum. Hún synti á 2:00,20 mínútum en fyrra Íslandsmet hennar í greininni var 2:00,50 mínútur. Það nægði samt ekki til að tryggja henni sæti í undanúrslitum en hún endaði í 22. sæti af 30 keppendum í undanrásum, 16 efstu komust áfram. Snæfríður Sól hefði þurft að ná 1:58,33 til að komast í undanúrslitin.
Engu að síður er þetta stórglæsilegur árangur hjá henni og magnað að ná að bæta sitt eigið met á svona stóru móti.
Næst keppir Snæfríður Sól í undanrásum 100 metra skriðsunds á miðvikudag. Bein útsending hefst klukkan 10 á RÚV.