Stuðningur og velvild í garð ÍSÍ og Ólympíufara
Það er alltaf áskorun að halda út í heim til íþróttakeppni og ekki síst í verkefni eins og Ólympíuleika þar sem oft þarf að ferðast um langan veg að keppnisstað og dvölin getur orðið í lengra lagi. Fjarvera frá sínu nánasta fólki tekur á og oft fátt um afþreyingu. Nú á tímum kórónuveirufaraldurs eru áskoranirnar um margt þyngri þar sem takmarkanir á ferðafrelsi í Tókýó eru umtalsverðar og afþreying því mögulega fábreyttari en oft áður.
Undirbúningur fyrir þátttöku í Ólympíuleikum felst í ýmsum þáttum og er það í höndum ÍSÍ að útvega þátttakendum fatnað til ferðarinnar og ýmsan annan varning og útbúnað til að nota í ferðinni. Þátttaka í Ólympískum verkefnum er því kostnaðarsöm fyrir ÍSÍ að öllu jöfnu.
Nú sem endranær styðja velviljuð fyrirtæki ÍSÍ og íslenska hópinn á Ólympíuleikunum í Tókýó með ýmsum hætti. Nú í vikunni afhenti fyrirtækið Storytel íslensku keppendunum lesbretti og þriggja mánaða áskrift að þúsundum hljóðbóka fyrirtækisins. Eins fengu allir í íslenska hópnum þriggja mánaða áskrift að Storytel. Það var Arnar Bentsson viðskiptastjóri hjá Storytel sem afhenti varninginn í höfuðstöðvum ÍSÍ og var myndin sem fylgir fréttinni tekin við það tækifæri. Á móti gjöfinni tóku Guðni Valur Guðnason og Ásgeir Sigurgeirsson fyrir hönd keppenda og Andri Stefánsson aðalfarstjóri og Örvar Ólafsson aðstoðarfararstjóri fyrir hönd föruneytis ÍSÍ.
Beiersdorf á Íslandi hefur einnig stutt dyggilega við bakið á verkefnum ÍSÍ um áralangt skeið og afhenti fyrirtækið öllum í íslenska hópnum sem fer á Ólympíuleikana í Tókýó veglegt sérmerkt ferðaveski með ýmsum húðvörum sem koma sér vel í ferðinni. Beiersdorf er alþjóðlegt fyrirtæki með markaðsleiðandi vörumerki eins og NIVEA, Eucerin o.fl.
Það er afar dýrmætt að hljóta stuðning með þessum hætti frá velviljuðum fyrirtækjum og ánægjan meðal íslenska hópsins er mikil með varninginn. Bæði Storytel og Beiersdorf fá bestu þakkir fyrir stuðninginn.