Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Engir áhorfendur leyfðir á ÓL í Tókýó

08.07.2021

Skipuleggjendur Ólympíuleikanna í Tókýó hafa staðfest að engir áhorfendur verði leyfðir á leikunum, sem settir verða 23. júlí næstkomandi og standa yfir til 8. ágúst. Ákvörðunin kemur í kjölfar viðræðna stjórnvalda í Japan og skipuleggjenda leikanna og er tekin í ljósi stöðu kórónuveirufaraldursins í Tókýó. Stjórnvöld hafa lýst yfir neyðarstigi í Tókýó vegna aukins fjölda smita og mun neyðarstigið gilda frá 12. júlí til 22. ágúst næstkomandi. Áætlanir skipuleggjenda um aðgengi heimamanna að viðburðum leikanna eru þar með farnar út um þúfur. Ákvörðunin hefur í för með sér mikil vonbrigði fyrir íþróttafólkið sem keppa mun á leikunum, skipuleggjendur og áhorfendur sem beðið hafa spenntir eftir því að sækja leikana en í aðstæðum sem þessum er öryggi allra viðkomandi í algjörum forgangi. Áhorfendur eru afar mikilvægir á stórviðburðum sem Ólympíuleikum. Þeir eiga stóran þátt í að skapa þá glæsilegu og eftirminnilegu umgjörð sem þekkt er á leikunum og skapa kjöraðstæður fyrir íþróttafólk til að ná sínum besta árangri. Japanir hafa sýnt leikunum gríðarlegan áhuga og mikil ásókn var í miða á alla viðburði þeirra. Fréttir dagsins hafa því væntanlega verið heimamönnum erfiðar.

Það styttist óðum í leikana og undirbúningur fyrir brottför íslenska hópsins gengur vel. Skipuleggjendur hafa gefið út leiðbeiningar fyrir þátttakendur sem innibera ýmsar reglur og skilyrði sem ekki hafa sést áður í undirbúningi fyrir Ólympíuleika enda aðstæður fordæmalausar og flóknar. Ljóst er að þolinmæði verður besti ferðafélagi þátttakenda og föruneytis á þessum leikum.