Verðlaunaafhendingar á ársþingi USVS
Ársþing USVS var haldið á Hótel Dyrhólaey miðvikudaginn 9. júní síðastliðinn. Þingið tókst vel og mættu 26 þingfultrúar af 30, auk gesta.
Litlar breytingar urðu á stjórn sambandsins. Formaður USVS er áfram Fanney Ásgeirsdóttir en aðrir í stjórn eru: Sif Hauksdóttir, Sigmar Helgason, Árni Jóhannsson og Ragnar S. Þorsteinsson. Stjórn mun svo skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi. Varastjórn skipa þau Fanney Ólöf Lárusdóttir, Sabina Victoria Reinholdsdóttir og Kristín Ásgeirsdóttir. Sæunn Káradóttir sem hefur verið ritari í stjórn USVS ákvað að gefa ekki kost á sér áfram í stjórn og var henni þakkað fyrir vel unnin störf.
Svanhildur Guðbrandsdóttir var valin Íþróttamaður USVS 2020. Svanhildur stóð sig vel á mótum á árinu 2020 og í lok árs 2020 var hún valin í ungmennalandslið Íslands í hestaíþróttum. Svanhildur er flott fyrirmynd. Hún er reglusöm, duglegur námsmaður og virkilega samviskusöm í þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur.
Á ársþinginu voru einnig veitt verðlaun til efnilegasta íþróttamanns USVS. Það var Egill Atlason Waagfjörð sem hlaut titilinn Efnilegasti íþróttamaður USVS 2020. Egill mætti á nánast allar æfingar Umf. Kötlu árið 2020, er alltaf mjög áhugasamur og virkur á æfingum og hefur mikinn metnað og leggur sig 100% fram á æfingum. Hann keppti á Meistaramóti Íslands utanhúss á Sauðarkróki í sumar með ágætis árangri. Þar bætti hann árangur sinn í flestum greinum. Egill stundaði einnig knattspyrnu af miklum krafti og voru mætingar og framkoma til mikillar fyrirmyndar. Egill er flott fyrirmynd fyrir hópinn, mjög virkur og áhugasamur.
Starfsmerki UMFÍ fengu þau Þorsteinn M. Kristinsson, sem var formaður USVS 2015-2020, Lára Oddsteinsdóttir, sem hefur verið í stjórn USVS og hestamannafélaginu Sindra og Sveinn Þorsteinsson, sem hefur lengi starfað fyrir USVS og Ungmennafélögin í Mýrdalshrepp.