Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Aðalfundur GSSE 2021

15.06.2021

Aðalfundur Smáþjóðaleika (GSSE) fór fram 10. júní sl. í Aþenu í Grikklandi. Fundinum stýrði forseti Andorra, Jaume Marti Mandigo. Forseti tækninefndar GSSE, Jean-Pierre Schoebel, flutti stutta skýrslu um störf tækninefndarinnar og kynnti breytingar á tæknireglum leikanna sem samþykktar voru síðar á fundinum. Forseti Ólympíunefndar Möltu, Pat Bonello, kynnti undirbúning fyrir næstu leika sem haldnir verða á Möltu árið 2023. Erfitt hefur reynst að fá fjármagn frá ríkisstjórn Möltu en vonast er til að það standi til bóta. Farið var yfir stöðu mannvirkja á Möltu og þær íþróttagreinar sem verða keppnisgreinar leikanna en það eru: Borðtennis, frjálsíþróttir, júdó, körfuknattleikur, rugby 7, skvass, skotfimi, sund, tennis.

Ólympíunefnd Andorra hefur óskað eftir því að fá að halda leikana árið 2025, Ólympíunefnd Mónakó hefur óskað eftir leikunum árið 2027 og Lúxemborg sækist eftir leikunum 2029. 

Næsti aðalfundur GSSE verður á Möltu árið 2022 en forseti Ólympíunefndar Möltu tók einmitt við formennsku GSSE með táknrænum hætti á aðalfundinum þegar honum var afhentur fáni leikanna frá Ólympíunefnd Andorra sem farið hefur með formennsku frá leikunum í Svartfjallalandi árið 2019. Myndin sem fylgir fréttinni er tekin við það tækifæri. Leikunum sem áttu að fara fram í Andorra árið 2021 var aflýst, vegna COVID-19 og eins vegna bágrar fjárhagsstöðu.