Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

„Við fengum góða sýn á þau verkefni sem unnin eru hjá ÍSÍ”

27.05.2021

Tveir nemar úr Íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík voru í verknámi hjá Þróunar- og fræðslusviði ÍSÍ fyrr í mánuðinum, þau Eiður Andri Guðlaugsson og Valgerður Marija Purusic. Þau unnu fjölbreytt verkefni á sviðinu og fengu kynningu á starfsemi ÍSÍ og sambandsaðilum ÍSÍ.

Að verknáminu loknu horfðu Eiður og Vala um öxl og höfðu þetta að segja um dvöl sína hjá ÍSÍ:

Eiður: „Við fengum góða sýn á þau verkefni sem eru unnin hjá ÍSÍ. Þau voru afar fjölbreytt og mismunandi eftir sviðum sem eru þrjú, Þróunar- og fræðslusvið, Afreks- og Ólympíusvið og Almenningsíþróttasvið. Öll sviðin eru með krefjandi og gefandi verkefni og fengum við að koma á nokkra fundi, vinna útdrátt og kynningu á lýðheilsuverkefninu „Bevæg dig for livet“ og fara yfir gagnalista. Við fengum líka góða kynningu hjá flestum sérsamböndunum og að sjálfsögðu öllum fagsviðunum innan ÍSÍ.”

Vala: „Í þessu verknámi lærði ég á hvernig starfsemi íþróttasambanda, sérsambanda, íþróttahéraða o.s.frv. fer fram. Þegar ég var yngri upplifði ég aldrei eins og það væri einhver á bakvið tjöldin að hugsa um almenna lýðheilsu en eftir þetta verknám hafa augun mín opnast fyrir glænýjum heimi sem að mér hefði aldrei dottið í hug á þeim tíma. Ég kem úr knattspyrnuheiminum og hef alltaf heyrt um starf KSÍ en aldrei beint um það hvað ÍSÍ gerir. Ég tek ofan fyrir því starfi sem ÍSÍ sinnir og hlakka til að sjá hvað þau munu koma til með að gera á næstu árum. Það er hins vegar eitt víst, við Eiður munum koma hingað aftur eftir nokkur ár og hlakka ég ekkert smá til að vera með honum á skrifstofu og kalla yfir á hann hvað það var fyndið í gamla daga að vera hérna í verknámi og fylgjast með löngu röðunum af fólki vera að mæta í COVID sprautu fyrir utan skrifstofur ÍSÍ.”

Eiður: „Það kom mér á óvart hversu vítt verkefnin ná innan ÍSÍ. Fyrir nokkru hélt ég að þau ynnu aðeins með afreksfólk en síðan kom í ljós að það var einungis eitt svið af þremur. Einnig kom mér á óvart hvað vinnuandinn var góður, fólkið spjallar mikið saman, fer út í göngutúra og er afar vinalegt. Þau taka mjög vel á móti manni og leið mér strax eins og ég væri velkominn í hópinn. Ég hef á tilfinningunni að þau losni ekki auðveldlega við mig og vonandi fæ ég að vinna með þeim í framtíðinni!”

Vala: „Það sem að stendur helst upp úr hjá mér er andinn sem er innan ÍSÍ. Það er ekki á hverjum vinnustað þar sem maður getur labbað inn og fundist maður vera orðinn hluti af fjölskyldu. Einnig kom mér það mikið á óvart hversu mörg verkefni eru undir hatti sambandsins, þá sérstaklega verkefni sem tengjast lýðheilsu. Fólk frá erlendum uppruna hefur alltaf skipt mig miklu máli, þar sem að faðir minn er af erlendum uppruna, og mín upplifun hefur alltaf verið sú að hægt sé að gera meira. Það stóð því mikið uppúr hjá mér þegar við fórum á fund út í bæ þar sem verið var að koma með hugmyndir um hvernig er hægt að hjálpa þeim sem koma frá öðru landi í leit af betra lífi, að komast í tengsl við íþróttafélög og íþróttastarf.”

Starfsfólk ÍSÍ þakkar Eiði og Völu fyrir góð kynni og flott starf í verknáminu og óskar þeim alls góðs í starfi og leik.