Heimsókn sendiherra Kína á Íslandi
Sendiherra Kína á Íslandi, JIN Zhijian, heimsótti höfuðstöðvar ÍSÍ 19. maí sl. Með honum í för var LYU Xiaoxiao, sendiráðsstarfsmaður.
Sendiherrann átti fund með forseta ÍSÍ, framkvæmdastjóra og sviðsstjóra Afreks- og Ólympíusviðs þar sem ræddur var undirbúningur fyrir fyrirhugaða þátttöku Íslands í Vetrarólympíuleikunum í Beijing 2022. Rætt var um mannvirki leikanna, staðsetningar og samgöngur á milli þriggja keppnissvæða leikanna. Hraðlest mun ganga frá Peking til þeirra keppnissvæða sem eru utan höfuðborgarinnar. Sendiráð gestgjafaþjóða Ólympíuleika gegna mikilvægu hlutverki í undirbúningi og aðdraganda viðkomandi leika og hefur ÍSÍ einstaklega góða reynslu af slíku samstarfi vegna fyrri leika. Farið var yfir mögulega samvinnu ÍSÍ og sendiráðsins fram að leikum.
Sendiherrann færði ÍSÍ fallega og þjóðlega gjöf við þetta tækifæri.