Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

Kosning í íþróttamannanefnd ÍSÍ

06.05.2021

Fimmtudaginn 29. apríl síðastliðinn fór fram fyrsti kosningafundur Íþróttamannanefndar ÍSÍ. Kosningafundurinn var haldinn með rafrænum hætti.

Íþróttamannanefnd ÍSÍ starfar samkvæmt reglugerð en hlutverk nefndarinnar er að vera málsvari íþróttamanna í samskiptum við ÍSÍ. Í nefndinni skulu sitja fimm meðlimir og er samsetning hennar skv. skilyrðum reglugerðarinnar. Kosningar til Íþróttamannanefndar fara fram annað hvert ár á sérstökum kosningafundi. Hvert sérsamband ÍSÍ getur tilnefnt karl og konu, sem uppfyllir þátttökuskilyrði sem fulltrúi sérsambandsins, á kosningafundinn og hefur hvert sérsamband því tvö atkvæði á fundinum.

Í framboði á þessum fyrsta kosningafundi voru 7 íþróttamenn/konur, um þau fimm sæti sem í boði voru. Eftirfarandi hlutu kosningu í nefndina fyrir starfstímabilið 2021-2023.

Anton Sveinn Mckee, sund
Ásdís Hjálmsdóttir Annerud, frjálsíþróttir
Dominiqua Alma Belányi, fimleikar
Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþraut
Sigurður Már Atlason, dans

Íþróttamannanefndin fundaði sunnudaginn 2. maí og valdi Ásdísi Hjálmsdóttur Annerud sem formann nefndarinnar. Íþróttamannanefndin tilnefndi einnig Ásdísi til að taka sæti íþróttamanna í framkvæmdarstjórn ÍSÍ og verður sú tilnefning borin undir 75. Íþróttaþing ÍSÍ 7. maí nk.

ÍSÍ færir fráfarandi stjórnarfólki Íþróttamannanefndarinnar, þeim Ágústu Eddu Björnsdóttur, Kára Steini Karlssyni og Jakobi Jóhanni Sveinssyni, miklar þakkir fyrir þeirra framlag og setu í fyrstu stjórn Íþróttamannanefndar ÍSÍ. 

Á meðfylgjandi mynd vantar Guðlaugu Eddu Hannesdóttur og Dominiqu Ölmu Belányi, fráfarandi formann nefndarinnar.