Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Mjög jákvætt að vera Fyrirmyndarhérað ÍSÍ

03.05.2021

64. ársþing Íþróttabandalags Akureyrar fór fram með rafrænum hætti fimmtudaginn 29. apríl síðastliðinn.  Ríflega 30 þingfulltrúar auk gesta sátu þingið sem formaður bandalagsins, Geir Kristinn Aðalsteinsson stýrði þinginu en um var að ræða frestað þing frá árinu áður.  Þingstörf gengu í alla staði vel og voru reikningar bandalagsins samþykktir samhljóða.  Helgi Rúnar Bragason framkvæmdastjóri ÍBA fór vel yfir siðareglur, hegðunarviðmið og viðbragðsáætlun ÍBA og hvatti aðildarfélög til að huga vel að þessum þáttum í íþróttastarfinu.  Tveir aðilar gengur úr stjórn, þau Hörður Sigurharðarson og Hrafnhildur Guðjónsdóttir og voru þau Birna Baldursdóttir og Jón Steindór Árnason kjörin í þeirra stað.  Geir Kristinn var endurkjörinn formaður bandalagsins.  Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ ávarpaði þingið fyrir hönd ÍSÍ og auk þess sat þingið skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, Viðar Sigurjónsson.

"Við hjá ÍBA erum bjartsýn á komandi tíma og erum heilt yfir mjög ánægð með hversu vel aðildarfélögin hafa staðið sig á erfiðum tímum.  ÍBA er Fyrirmyndarhérað ÍSÍ og aðildarfélögum með viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélög ÍSÍ fjölgar hratt þessi misserin.  Við teljum það mjög jákvætt í alla staði enda eykur það fagmennsku enn frekar í okkar öfluga íþróttastarfi", sagði Helgi Rúnar Bragason framkvæmdastjóri ÍBA loknu þingi.