Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Hlutfall íþróttakvenna að aukast á Ólympíuleikum

10.03.2021

Alþjóðaólympíunefndin (IOC), Alþjóðaólympíunefnd fatlaðra (IPC), skipulagsnefnd Ólympíuleikanna í Tókýó 2020, ríkisstjórn Japans og borgarstjórn Tókýó (TMG) ítrekuðu á Alþjóðlegum barráttudegi kvenna að leitast væri eftir því að Ólympíuleikarnir og Paralympics yrðu leiðandi varðandi jafnrétti kynjanna, bæði innan vallar og utan og að leikarnir ættu að standa fyrir jafnrétti og samfélagi án aðgreiningar. Á leikunum er stefnt að eftirfarandi:

- Konur verða 49 prósent keppenda á Ólympíuleikunum, samkvæmt samþykktum kvóta IOC.
- Konur verða 40,5 prósent keppenda á Paralympics, samkvæmt samþykktum kvóta IPC. Það eru 1.782 íþróttakonur, sem er 38,6 prósent fleiri en í Ríó 2016.
- Keppnisdagskrá leikanna tryggir að konur og karlar fá jafnan sýnileika í sínum keppnum. Auk þess verða níu fleiri blandaðir viðburðir, þar sem konur og karlar keppa saman, en voru í Ríó 2016.
- Í fyrsta skipti í sögunni ættu allar 206 Ólympíunefndirnar (NOC) að geta verið með að minnsta kosti eina íþróttakonu og einn íþróttamann í sínu Ólympíuliði.
- IOC hvetur allar 206 Ólympíunefndirnar ásamt Ólympíuliði flóttafólks til að velja bæði konu og karl sem fánabera við setningarhátíðarnar á Ólympíuleikunum og á Paralympics.

Skipulagsnefnd Ólympíuleikanna í Tókýó hefur fjölgað aðilum í framkvæmdastjórn sinni og er nú hlutfall kvenna í þeirri stjórn 42 prósent. Einnig hefur verið sett á laggirnar kynningarteymi sem er ætlað að kynna jafnrétti kynjanna í kringum leikana.

Nú eru rúmir fjórir mánuðir þangað til setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó fer fram þann 23. júlí 2021. Leikarnir standa yfir í rúmar tvær vikur og lýkur með lokahátíð þann 8. ágúst. Leikarnir áttu að hefjast þann 24. júlí 2020, en þeim var frestað um eitt ár vegna ástandsins í heiminum sökum Covid-19.