75. ársþingi KSÍ streymt í beinni
75. ársþing Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) fór fram þann 27. febrúar, en það var haldið í fyrsta sinn með rafrænum hætti frá höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal. Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ.
Nokkrar tillögur lágu fyrir þinginu og er hægt að lesa um afgreiðslu þeirra á síðu KSÍ.
Guðni Bergsson gaf kost á sér til áframhaldandi formennsku og var sjálfkjörinn, þar sem ekkert mótframboð barst.
Ásgeir Ásgeirsson, Borghildur Sigurðardóttir, Magnús Gylfason og Þorsteinn Gunnarsson voru sjálfkjörin í stjórn þar sem ekkert mótframboð barst. Auk þeirra sitja í stjórn Gísli Gíslason, Ingi Sigurðsson, Ragnhildur Skúladóttir og Valgeir Sigurðsson. Varamenn í stjórn eru Guðjón Bjarni Hálfdánarson, Jóhann K. Torfason og Þóroddur Hjaltalín.
Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, sagði um þingið: „Þó vissulega sé komin nokkur reynsla á fjarfundi á þessum Covid-tímum, þá er eitt að halda fjarfund og annað að skipuleggja og framkvæma ársþing sem þetta og að gríðarlega mörgu að hyggja. Fundurinn sjálfur og samskipti innan hans er eitt verkefni, annað verkefni er atkvæðagreiðsla og kosningar, og þriðja verkefnið er svo samskipti og kynning út á við. Tæknistjórnun var í höndum Advania og starfsfólks KSÍ og gekk það samstarf afar vel. Framkvæmdin á þinginu gekk vonum framar, atkvæðagreiðslur um málefni sem lágu fyrir þinginu voru hnökralausar og ársþinginu var nú í fyrsta sinn streymt í beinni og opinni vefútsendingu á miðlum KSÍ og voru vel á annað þúsund tengingar inn á útsendinguna yfir daginn.“
Tvenn grasrótarverðlaun KSÍ voru veitt fyrir árið 2020, annars vegar til Fótboltafélagsins Múrbrjóta og hins vegar til Kormáks/Hvatar. Nánar má lesa um grasrótarverðlaunin á vefsíðu KSÍ hér.
Jafnréttisviðurkenningu KSÍ fyrir árið 2020 hlaut Heimavöllurinn fyrir brautryðjendastarf á sviði umfjöllunar um knattspyrnu kvenna. Nánar má lesa um jafnréttisviðurkenninguna á vefsíðu KSÍ hér.
Knattspyrnudómarafélag Norðurlands (KDN) hlaut dómaraverðlaun KSÍ fyrir 2020 og Marc Boal hlaut fjölmiðlaviðurkenningu KSÍ fyrir bók sína „Sixty four degrees north“.