Áherslur á íþróttastarfi barna á Íslandi
Í ljósi umræðu í samfélaginu undanfarinna daga, í kjölfar sýningar á myndinni Hækkum rána, vill Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) koma eftirfarandi á framfæri.
Þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi er mikil og almenn á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Íþróttafélögin standa fyrir metnaðarfullu starfi sem stýrt er af vel menntuðum þjálfurum sem fá greitt fyrir sín störf. Þar er pláss fyrir alla og börn og ungmenni hafa jafnan rétt til þess að stunda íþróttir og vera metin að eigin verðleikum. Uppbygging íþróttastarfsins á Íslandi, starfsemi íþróttafélaga og áherslur í starfi með börnum og unglingum hafa vakið athygli langt út fyrir landssteinana.
Stefna ÍSÍ í íþróttum barna og unglinga var samþykkt á Íþróttaþingi ÍSÍ árið 1996 og endurskoðuð á Íþróttaþingi ÍSÍ árið 2015 og byggir á viðurkenndri þekkingu úr fræðasamfélaginu. Samhliða endurskoðun stefnunnar var gefinn út bæklingurinn Íþróttir barnsins vegna en þar eru tíunduð markmið með íþróttaþátttöku, leiðir, mælikvarði á árangur og keppni, verðlaun og viðurkenningar. Í stefnunni er mikil áhersla lögð á að íþróttir eigi að vera fyrir alla, þær þurfi að vera skemmtilegar og leikurinn skipi stóran sess. Árangur er hægt að mæla á ólíkan hátt, en auk sigra í keppnum, er aukin þátttaka, ánægja iðkenda og að halda iðkendum í starfinu einnig hluti af árangri.
Árið 2016 settu ÍSÍ og UMFÍ á laggirnar verkefnið Sýnum karakter en hugmyndafræði verkefnisins er að hægt sé að þjálfa sálræna og félagslega færni barna og unglinga til jafns við líkamlega færni í gegnum íþróttir. Helsta markmið verkefnisins hefur verið að hvetja þjálfara og íþróttafélög til að leggja enn meiri og markvissari áherslu á að byggja upp góðan karakter hjá iðkendum. Með þjálfun karakters sinnir íþróttafélagið bæði uppeldishluta og afrekshluta íþróttastarfsins og góðir karakterar verða síðar góðir þjóðfélagsþegnar því að ekki verða allir landsliðsmenn í íþróttum.
Rannsóknir hafa sýnt að þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur ýmis jákvæð áhrif á líðan og hegðun ungmenna. Börn og ungmenni sem taka þátt í formlegu íþróttastarfi fá útrás fyrir hreyfiþörf sína og nota síður tóbak, áfengi eða önnur vímuefni. Jafnframt eru þau líklegri til að vera heilsuhraustari og líða betur andlega, líkamlega og félagslega heldur en þau börn sem taka ekki þátt í starfinu. Þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur jákvæð áhrif á persónulega uppbyggingu og þroska einstaklinga. Börn og ungmenni læra siðferði, heiðarleika, virðingu, samvinnu, hollustu og skuldbindingu með því að taka þátt. Jafnframt læra þau að takast á við sigra og töp, setja sér markmið, sýna vinnusemi og tillitsemi, vinna í hóp, virða skoðanir annarra og fara eftir reglum. Íþróttaiðkun ýtir líka undir mikilvæg gildi eins og liðsanda, einingu, umburðarlyndi og sanngjarnan leik.
Fyrir tveimur árum voru hegðunarviðmið ÍSÍ endurskoðuð en þau eru siðareglum ÍSÍ til stuðnings. Í hegðunarviðmiðum fyrir þjálfara er m.a. lögð áhersla á að bera virðingu fyrir mótherjum, foreldrum/forsjáraðilum, dómurum, sjálfboðaliðum, þjálfurum og öðru starfsfólki og stuðla að því að iðkendur geri slíkt hið sama. Þar er einnig lögð áhersla á virðingu fyrir þjálfarastarfinu sjálfu með því að gera kröfur um málfar og hegðun og sýna íþróttinni og félaginu virðingu og virða reglur.
ÍSÍ er mótfallið þjálfunaraðferðum sem stríða gegn reglum og viðmiðum íþróttahreyfingarinnar.