Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Upplýsingafundur með fulltrúum Vinnumálastofnunar

04.02.2021

Rétt í þessu lauk upplýsingafundi ÍSÍ með fulltrúum Vinnumálastofnunar (VMST) þar sem farið var í gegnum umsóknarferli og skilyrði til umsókna um greiðslur til lögaðila innan ÍSÍ vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs. Vinnumálastofnun var falið, af hálfu félags- og barnamálaráðuneytis, að hafa umsjón með þessu úrræði sem sett var fram með setningu laga nr. 155/2020 en markmið þeirra laga er að stuðla að því að íþróttafélög geti hafið óbreytta starfsemi að nýju eftir að þeim hefur verið gert að fella niður starfsemi á tilteknu tímabili vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. 

Lögin taka til greiðslna vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna hjá íþróttafélögum og öðrum samböndum sem starfa innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 og þurftu að fella niður starfsemi tímabundið, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnarráðstafana á tímabilinu 1. október 2020 til og með 30. júní 2021. Umsóknir um greiðslur skulu berast Vinnumálastofnun fyrir 30. september 2021. Eftir þá dagsetningu fellur réttur til greiðslu niður.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ávarpaði fundinn og sagði það einkar ánægjulegt að sjá þetta úrræði formlega opnað á vef Vinnumálastofnunar.

Edda Bergsveinsdóttir og Sverrir Brynjar Berndsen frá Vinnumálastofnun fóru yfir umsóknarferlið sem er alfarið rafrænt á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar er búið að setja inn góðar leiðbeiningar og svör við algengum spurningum, sem nýtast munu vel við gerð umsókna. Í máli þeirra kom fram að stefnt er að því að hægt verði að greiða út fyrstu greiðslur til umsækjenda í febrúarmánuði. Að kynningunni lokinni þá svöruðu þau fyrirspurnum frá fundargestum.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ stýrði fundinum. Hann þakkaði félags- og barnamálaráðherra kærlega fyrir að hafa staðið fyrir því að koma þessu úrræði á og sagðist þess fullviss að það ætti eftir að koma sér gríðarlega vel fyrir íþróttahreyfinguna. Einnig þakkaði hann Vinnumálastofnun fyrir frábært samstarf í undirbúningi úrræðisins og eins fyrir aðgengilegt og skýrt umsóknarsvæði.

Fundinn sóttu um 120 fulltrúar eininga innan vébanda ÍSÍ.

Upplýsingar um umsóknarferlið á heimasíðu Vinnumálastofnunar er að finna hér.

Myndir með frétt