Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Eitt ár til Vetrarólympíuleikanna 2022

04.02.2021

Í dag er eitt ár þar til setningarhátíð Vetrarólympíuleikanna 2022 í Peking í Kína fer fram þann 4. febrúar 2022. Lokahátíðin fer fram þann 20. febrúar. Alþjóðaólympíunefndin (IOC) fagnar deginum að mestu leyti með rafrænum hætti undir myllumerkinu #StrongerTogether.

Lukkudýr leikanna er pandan Bing Dwen, sem mun hvetja íþróttafólkið áfram á meðan á leikunum stendur. Bing þýðir Ís en merkir einnig hreinleika og styrk, orðið Dwen þýðir börn. Pandan er spendýr sem tilheyrir ætt bjarndýra og á heimkynni sín í Kína. Pandabjörninn lifði eitt sinn á láglendinu í Kína en maðurinn hefur, með landbúnaði, eyðileggingu skóglendis og stækkandi byggð, þvingað hann upp í fjöllin. Nú lifir pandabjörninn í fjalllendi og er í útrýmingarhættu af mannavöldum. Talið er að á bilinu 1.500-3.000 pöndur lifi í náttúrunni. Pandan er þekkt sem þjóðargersemi Kína og elskuð af fólki hvaðanæva úr heiminum, þá sérstaklega ungu fólki. Skipulagsnefnd Vetrarólympíuleikanna vonast eftir því að með því að velja pönduna sem lukkudýr Vetrarólympíuleikanna 2022 skapist umræða um stöðu pöndunnar í heiminum í dag.

Vetrarólympíuleikarnir í Peking verða umhverfisvænir og því leggur skipulagsnefnd leikanna mikið upp úr því að nota umhverfisvæn efni fyrir varning tengdan leikunum. 

Búast má við að íslenski hópurinn verði sambærilegur og var á Vetrarólympíuleikunum 2018. Þá átti Ísland fimm keppendur í skíðagöngu og alpagreinum, en nú er jafnframt vonast til þess að keppendur í snjóbrettum nái að vinna sér inn þátttökurétt á leikana 2022.

Fyrr í vikunni fór fram rafrænn fundur aðalfararstjóra þar sem fjallað var um flesta þætti leikanna. Undirbúningur gengur vel og eru flest mannvirki tilbúin til þess að taka á móti þátttakendum á næsta ári. Peking verður fyrsta borgin til að halda bæði sumar- og vetrarleika og verða fjölmörg mannvirki frá leikunum 2008 notuð fyrir keppni á vetrarleikunum 2022.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Alþjóðaólympíunefndin lét útbúa til að fagna því að nú sé eitt ár til Vetrarólympíuleika 2022.

 

Vetrarólympíuleikarnir í Peking 2022 - 1 ár til stefnu from ISI on Vimeo.