Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
20

Gleðilegt íþróttaár 2021

27.01.2021

Grundvallarforsenda í öllu íþróttastarfi ætti að vera að styrkja áhuga barna og ungmenna á íþróttastarfinu. Hlutverk þjálfara og ábyrgð hans í uppeldi iðkenda er ótvírætt og skiptir því sköpum hvaða áherslur hann leggur í starfi sínu á hluti eins og heilbrigt líferni, sigur í keppni, andrúmsloft á æfingum o.fl. Gott bakland og öflugur stuðningur frá nánustu aðstandendum er einnig lykilatriði þegar kemur að því að börn og ungmenni haldi áfram íþróttaiðkun sinni. 

Undanfarna mánuði hefur íþróttastarf eins og við þekkjum það verið með breyttu sniði og verulega hefur reynt á hugmyndaauðgi þjálfara og þrautseigju og þolinmæði iðkenda. Þetta hlé hefur opnað augu margra iðkenda fyrir því hversu dýrmætt það er að mæta á æfingu, hitta félagana og hafa gaman. Eitt helsta hlutverk þjálfara ætti að vera að skapa jákvætt og hvetjandi andrúmsloft á æfingum og í keppni. Börn og ungmenni byrja að stunda íþróttir og halda því áfram af því það er skemmtilegt og þeim líður vel á æfingum.

Nú er bjart framundan, æfingar geta farið fram með eðlilegum hætti og búið er að leyfa keppni þó að áhorfendur séu ekki leyfðir í bili. Margar ólíkar íþróttagreinar eru í boði og því ættu öll börn og ungmenni að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Skipulagt íþróttastarf hefur víðtækt forvarnargildi, ekki einungis gegn frávikshegðun, líkt og afbrotum, ofbeldi og vímuefnaneyslu, heldur tengist íþróttaþátttaka einnig betri námsárangri, betri líðan, meiri sjálfsvirðingu og jákvæðari líkamsmynd. Mikilvægast er að iðkendur njóti íþróttarinnar og rækti með sér áhuga á íþróttinni, því þar með er lagður grunnur að íþróttaiðkun til framtíðar.

  • Hér á vefsíðu ÍSÍ má sjá þá fræðslubæklinga sem ÍSÍ hefur gefið út, m.a. Íþróttir barna og Leiðbeinandi barna og unglinga í íþróttum.
  • Fyrir áhugasama þá má skoða vefsíðu „Sýnum karakter“, en verkefnið er átaksverkefni um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda eins og líkamlega færni.
  • Hér má sjá Ánægjuvogina. Niðurstöður Ánægjuvogarinnar eru mjög jákvæðar fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi. Þar kemur skýrt fram að þeim nemendum sem eru virkir í skipulögðu íþróttastarfi líður betur og vinna betur í hópi en aðrir. Þetta er mikill fjöldi, því um 90% barna í hverjum árgangi fer í gegnum íþróttastarf með íþróttafélagi á einhverjum tímapunkti. Þar kemur einnig fram að 61% nemenda í efstu bekkjum grunnskóla æfi með íþróttafélagi einu sinni í viku eða oftar. Meirihluti nemendanna metur andlega og líkamlega heilsu sína góða, eru síður líkleg til að sýna af sér frávikshegðun og neyta vímuefna.
  • Hér má sjá verkefnið Verum hraust. ÍSÍ hvetur alla landsmenn til að sýna frumkvæði og sköpunargleði við að efla líkamlega og andlega heilsu sína á tímum kyrrsetu og takmarkana.

ÍSÍ lítur björtum augum á 2021. Gleðilegt íþróttaár!