Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Sendiherra Íslands í Japan í heimsókn hjá ÍSÍ

15.01.2021

 

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Japan og Axel Nikulásson, sérstakur ráðgjafi utanríkisráðuneytisins funduðu í morgun með Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra, Andra Stefánssyni sviðsstjóra Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og Höllu Kjartansdóttur skrifstofustjóra ÍSÍ, í höfuðstöðvum ÍSÍ í Laugardalnum.

Á fundinum var farið yfir ýmis málefni er tengjast Ólympíuleikunum í Tókýó sem fyrirhugaðir eru dagana 23. júlí til 8. ágúst í sumar. Mikil óvissa er um nánast alla þætti í undirbúningi leikanna, vegna stöðu kórónuveirufaraldursins sem geisar um allan heim þessa stundina og erfitt að sjá fyrir hvaða sviðsmynd verður valin í framkvæmd leikanna þegar þar að kemur. Óvissan gerir allan undirbúning ÍSÍ, viðkomandi sérsambanda ÍSÍ og ekki síst þátttakendurna sjálfa afar ófyrirsjáanlegan og erfiðan.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir ÍSÍ að eiga stuðning sendiráðs Íslands vísan í undirbúningi Ólympíuleika og verður án efa dýrmætt fyrir ÍSÍ að geta leitað til sendiráðsins í Tókýó í aðdraganda leika. Sendiráðið kemur að ýmsum málum er varða til dæmis undirbúning heimsókna háttsettra gesta á leikana en einnig er sendiráðið mikilvægur hlekkur þegar kemur að því að koma á tengslum á milli þjóðanna varðandi íþróttatengd málefni og koma ÍSÍ, Íslandi og íslensku afreksíþróttafólki á framfæri við japönsku þjóðina. Áhugi Íslendinga á Japan, japönsku og japanskri menningu er mikill og er það gagnkvæmt. Kemur það m.a. sterkt fram í samstarfi háskóla landanna beggja og vinsælda japönsku hjá íslenskum háskólanemum.

Axel Nikulásson ráðgjafi í utanríkisráðuneytinu hefur verið tengiliður viðkomandi sendiráðs við ÍSÍ á tvennum Ólympíuleikum, þ.e. í Peking árið 2008 og í London 2012 og þekkir því vel þau verkefni sem geta fallið í skaut sendiráðanna í aðdraganda leika og á meðan leikarnir standa yfir. 

ÍSÍ hlakkar til samstarfsins við sendiráðið í Japan næstu vikur og mánuði.