Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Íþrótta- og æskulýðsstarfi komið í gegnum COVID-19

21.12.2020

Mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra héldu í dag blaðamannafund í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal þar sem kynntar voru aðgerðir stjórnvalda til stuðnings íþrótta- og æskulýðsstarfi í landinu. Í kjölfar fundarins birtu ráðuneytin eftirfarandi sameiginlega fréttatilkynningu:

Ráðist verður í aðgerðir til þess að styðja við starf íþrótta- og æskulýðsfélaga sem raskast hefur verulega vegna afleiðinga sóttvarnaráðstafana COVID-19. Þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi hefur fjölþætt gildi og er mikilvægt að íþrótta- og æskulýðsfélög geti hafið óbreytta starfsemi sem fyrst þegar faraldrinum lýkur. Þá hefur faraldurinn einnig haft mikil áhrif á starf eldri flokka og afreksstarf í íþróttum. Stuðningur stjórnvalda á þessu sviði verður einn sá mesti á Norðurlöndunum.                

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra: 
„Virkni og vellíðan fara saman; um allt land er blómlegt íþrótta- og æskulýðsstarf mikilvægur þáttur í hverju samfélagi. Um það starf viljum við standa vörð og tryggja að iðkendur á öllum aldri geti sem best sinnt sínum áhugamálum áfram.“

 Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra:
„COVID-19 faraldurinn hefur haft mikil áhrif á íþrótta- og æskulýðsstarf í landinu og sóttvarnaraðgerðir hafa raskað starfsemi íþróttafélaga. Íþrótta- og æskulýðsstarf hefur jákvæð og þroskandi áhrif á börn og ungmenni og því er mjög mikilvægt að við stöndum vörð um það góða starf. Með þessum umfangsmiklu aðgerðum tryggjum við að íþrótta- og æskulýðsstarf geti haldið áfram með þeim hætti sem við þekkjum þegar faraldrinum líkur. Þetta er skynsöm fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka fyrir samfélagið allt.“

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ:
„Aðgerðir stjórnvalda til stuðnings íþrótta- og æskulýðsstarfinu í landinu eru gríðarlega mikilvægar og stuðla að því að íþróttahreyfingin geti haldið úti sínu faglega starfi og sett aukinn kraft í starfsemina þegar öllum takmörkunum verður aflétt. Með þessu er líka búið að koma upp öryggisneti þannig að ef framhald verður á takmörkunum vegna farsóttarinnar þá er tryggt að íþróttahreyfingin getur staðið skil á launum og verktakagreiðslum, sem er undirstaða starfseminnar.”

Aðgerðirnar eru eftirfarandi:

Greiðslur vegna launakostnaðar íþróttafélaga:
Til að tryggja að sem minnst röskun verði á íþróttastarfi til lengri tíma litið og félög geti viðhaldið ráðningasambandi við starfsfólk sitt verður veittur styrkur sem nemur launakostnaði þess, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, hafi hlutaðeigandi íþróttafélagi verið gert að fella tímabundið niður starfsemi vegna opinberra sóttvarnaráðstafana á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021.
Vinnumálastofnun mun annast framkvæmd þessa og er ráðgert að opnað verði fyrir umsóknir í janúar næstkomandi og verður úrræðið kynnt nánar á fundi Vinnumálastofnunar með íþróttahreyfingunni milli jóla- og nýárs. Ráðgert er að heildargreiðslur vegna þessarar aðgerðar nemi um einum milljarði kr.

Viðbótarframlag til stuðnings íþróttafélögum:
Veitt verður stuðningsframlag til íþróttafélaga, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og verður sami háttur hafður á og við úthlutun styrkja til félaganna í vor. Framlag sem nemur 300 milljónum kr. verður skipt milli íþróttafélaga sem starfrækja skipulagt íþróttastarf fyrir börn og unglinga 6-18 ára. Tillit verður tekið til fjölgreinafélaga og getur úthlutun til einstaks íþróttafélags getur ekki orðið hærri en 3% af veltu félagsins samkvæmt staðfestum reikningsskilum 2019. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands gerir tillögu til ráðherra um úthlutunina. Stuðningur þessi kemur til viðbótar 450 milljónum kr. sem úthlutað var til rúmlega 200 íþrótta- og ungmennafélaga í sumar sem lið í fjárfestingarátaki stjórnvalda.

Styrkir til æskulýðsfélaga:
Félagasamtök sem standa fyrir skipulögðu starfi fyrir börn og ungmenni munu geta sótt um styrki  vegna tekjutaps félaga vegna afleiðinga COVID-19. Til úthlutunar verða alls 50 milljónir kr. og verður styrkurinn auglýstur á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins í janúar. Umsóknum um styrki skal vera hægt að sýna fram á veruleg neikvæð áhrif á afkomu félagsins. Stuðningur þessi kemur til viðbótar 50 milljón kr. stuðningi sem auglýstur var til félaganna í júní síðastliðinn.  
 

Fylgiskjal - Yfirlit yfir stuðningsaðgerðir vegna Covid-19