Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Skýrsla vinnuhóps ÍSÍ um þjóðarleikvanga í íþróttum

18.11.2020
Vinnuhópur sem framkvæmdastjórn ÍSÍ skipaði um þjóðarleikvanga í kjölfar Íþróttaþings ÍSÍ 2019 hefur skilað af sér skýrslu og hefur skýrslan verið kynnt fyrir framkvæmdastjórn ÍSÍ og sambandsaðilum ÍSÍ.

Helstu verkefni vinnuhópsins voru að kortleggja þarfir þeirra sérsambanda sem uppfylla kröfur reglugerðar mennta- og menningarmálaráðuneytisins um viðurkenningu þjóðarleikvanga í íþróttum og koma með tillögur að forgangsröðun og úrlausnum.

Í skýrslunni má finna ítarlega samantekt á skilgreiningum og fyrri vinnu á vegum ÍSÍ sem tengist umræðu um íþróttamannvirki og þjóðarleikvanga. Upplýsingar eru um aðkomu sveitarfélaga að aðstöðumálum sérsambanda og skoðuð er staðan hjá bæði Norðurlandaþjóðum sem og mörgum smáþjóðum Evrópu.

Umræða um þjóðarleikvanga snýst ekki eingöngu um keppnismannvirki heldur líka að tryggja sérsamböndum ÍSÍ aðgengi að æfingaaðstöðu fyrir sitt afreksstarf og iðkendur. Ítarlega er fjallað um þann þátt í skýrslunni.
Vinnuhópurinn ræddi hlutverk ríkis og sveitarfélaga varðandi uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja og mikilvægi þess að skilgreina fjárhagslega aðstoð ríkisins við æfingar og alþjóðlega keppni sérsambanda.

Hvað varðar þau sérsambönd sem geta gert tilkall að skilgreindrum þjóðarleikvangi telur vinnuhópurinn rétt að horfa til þeirra sérsambanda sem flokkast sem A-Afrekssérsambönd en jafnframt þeirra sérsambanda sem halda reglulega alþjóðlega viðburði eða leika landsleiki heima og að heiman í undankeppnum stórmóta.

Vinnuhópurinn telur að nauðsynlegt sé að til staðar séu mannvirki (þjóðarleikvangar) sem uppfylla skilyrði fyrir alþjóðleg mót í okkar helstu íþróttagreinum. Fjármögnun íþróttamannvirkja, bæði bygging þeirra og rekstur, sé og verði stærsta úrlausnarmálið og mikilvægt að ríkisvaldið og sveitarfélög komi saman að því að koma á fót þjóðarleikvöngum íþrótta. Sameiginlega þurfi allir aðilar að finna raunhæfa nálgun á þetta stóra verkefni fyrir íslenskar íþróttir.

Vinnuhópur um þjóðarleikvanga - Lokaskýrsla 2020