Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Rafrænar afreksbúðir ÍSÍ

17.11.2020

Á laugardaginn sl. voru afreksbúðir ÍSÍ haldnar, að þessu sinni með rafrænu sniði. Sérsamböndum ÍSÍ gafst kostur á að tilnefna íþróttafólk úr sínum afrekshópum á aldrinum 15-18 ára. Alls sat íþróttafólk frá 21 sérsambandi fundinn.

Á þessum fyrstu rafrænu afreksbúðum var fjallað um fræðsluefni Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC), Athlete 365. Erlingur Jóhannsson prófessor í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands fjallaði um svefn og árangur í íþróttum. Í erindi hans var skilgreint hvað felst í hugtakinu svefn og hvers vegna það er mikilvægt að sofa eins og ráðleggingar segja til um, eða 8 til 10 klukkustundir á hverjum einasta sólarhring. Farið var yfir afleiðingar svefnleysis og hvaða þættir í daglegu lífi okkar geta haft neikvæð áhrif á svefnvenjur. Sagt var frá rannsóknum þar sem svefnmynstur íslenskra ungmenna hefur verið skoðað – niðurstöður kynntar og ræddar. Farið var ítarlega í gegnum svefnþörf ungmenna í íþróttum og hvernig þau atriði tengjast líkamlegri sem og andlegri þjálfun. Í lokin var einblínt á hvað ungt íþróttafólk getur gert til að fá nægilega hvíld, sofa vel og þróa til lengri tíma litið góðar svefnvenjur.

Fulltrúi frá Arion banka var svo með erindi um fjármálalæsi ungs fólks. Meðal þess sem farið var yfir er hvað það þýðir að vera fjárráða. Einnig var farið yfir helstu bankahugtök sem mikilvægt er að hafa skilning á við fjárræði, t.d. yfirdráttur, kreditkort og verðbólga. Farið var yfir mikilvægi sparnaðar og hvernig hægt er að nýta séreignarsparnað til að hjálpa sér að kaupa fyrstu eign. Farið var yfir hvernig lán virka og hvað kostar að taka lán samanborið við að spara fyrir hlutunum. 

Fleiri rafrænir fræðslufyrirlestrar verða haldnir fyrir ungt og upprennandi íþróttafólk sérsambanda ÍSÍ á næstu vikum.

 

Myndir með frétt