Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Fjárhagsumræða fyrirferðarmikil á Formannafundi ÍSÍ

13.11.2020

Árlegur Formannafundur ÍSÍ var haldinn síðdegis í dag. Fundinn, sem er upplýsingafundur, sitja formenn og framkvæmdastjórar sambandsaðila ÍSÍ ásamt framkvæmdastjórn ÍSÍ og starfsfólki ÍSÍ. Fundurinn var haldinn á Microsoft Teams og var þátttakan frábær eða yfir 100 manns.

Málefni COVID-19 faraldursins og áhrifa hans á starf og fjárhag íþróttahreyfingarinnar voru fyrirferðarmikil á fundinum en einnig var farið yfir starf vinnuhópa ÍSÍ sem starfa á milli þinga um ýmis hagsmunamál hreyfingarinnar.

Skýrsla stjórnar var flutt og farið yfir ársreikning ÍSÍ ásamt lykiltölum úr rekstri íþróttahreyfingarinnar í heild.
Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ, Sólveig Jónsdóttir framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, Frímann Ari Ferdinandsson framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur og Guðrún Inga Sívertsen formaður vinnuhóps ÍSÍ um úthlutun á framlagi ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19, héldu erindi sem tengdust fjármálum hreyfingarinnar.

Á fundinum greindi Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, frá viðræðum við stjórnvöld um frekari stuðning til handa íþróttahreyfingunni og að frétta væri að vænta innan skamms í hverju sá stuðningur muni felast.
Forsetinn benti á að íþróttaforystan hefði aldrei staðið þéttar saman eða haft nánara samráð og samskipti heldur en undanfarna mánuði. Reglubundin samskipti hafi átt sér stað í formi fjarfunda, um fjölmörg hagsmunamál og áskoranir sem upp hafa komið, og ljóst að þessi aðgengilegi fundarmáti sé kominn til að vera. Hann hvatti sambandsaðilana til bjartsýni og jákvæðni. Teikn væru um bjartari tíma á komandi ári.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ:
„Íþróttaforystan hefur miklar áhyggjur af íþróttastarfinu í landinu, bæði starfslega og fjárhagslega, vegna afleiðinga af COVID-19 faraldrinum. Ekki síst höfum við áhyggjur af mögulegu brottfalli iðkenda úr röðum barna og ungmenna og verða íþróttahreyfingin og stjórnvöld að taka höndum saman til að veita því viðspyrnu. Afreksíþróttastarfið í landinu hefur einnig átt erfitt uppdráttar vegna þeirra miklu takmarkana sem í gildi hafa verið og frestunum og niðurfellingu viðburða, bæði innanlands sem utan.

Íþróttahreyfingin hefur lagt gríðarlega mikið á sig við að halda úti starfi við þessar aðstæður og vert að þakka öllum sem að því starfi koma dags daglega.“


Myndir með frétt