Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
23

20 ár liðin frá bronsverðlaunum Völu

09.10.2020

Þann 25. september sl. voru liðin 20 ár frá því að Vala Flosadóttir vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Sidney. Vala varð þarna þriðji Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum. Jafnframt hefur enginn Íslendingur unnið til verðlauna í einstaklingsgrein frá því að Vala gerði það árið 2000.

Vala bætti sig þennan dag þegar hún stökk yfir 4,50 metra og setti um leið nýtt Íslands- og Norðurlandamet. Hún leiddi keppnina um tíma en sú sem sigraði endaði á því að fara yfir 4,60 metra og silfurverðlaunahafinn, 4,55 metra. Vala var útnefnd í Heiðurshöll ÍSÍ þann 29. desember árið 2012.

Frjálsíþróttasamband Íslands heyrði í Völu við tilefnið og birti það í frétt á vefsíðu sinni, www.fri.is:

„Eftir að ég byrjaði að æfa stangarstökk gekk mér fljótlega mjög vel. Þetta var grein sem hentaði mér vel að mörgu leyti, bæði margþætt og krefjandi. Þegar ég nokkuð óvænt varð Evrópumeistari 1996 þá gerði ég mér grein fyrir að ég væri komin í röð þeirra fremstu,“ segir Vala aðspurð um það hvenær hún áttaði sig á því að hún ætti möguleika á því að verða heimsklassa stangarstökkvari.

Fyrstu viðbrögð eftir að hafa unnið til bronsverðlauna segir Vala hafa verið hrein og tær gleði. „Það var stórkostleg tilfinning að uppfylla þann draum að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum. Ég mun alltaf minnast þess vel,“ segir Vala.

Um lífið og vinnumarkaðinn eftir ferilinn og hvernig íþróttirnar hafi hjálpað henni segir Vala: „Fyrst og fremst hefur reynslan kennt mér mikilvægi þess að gera það sem mér finnst skemmtilegt og gefandi og um leið að leggja áherslu að finna það skemmtilega og jákvæða í þeim verkefnum sem mér geta fundist erfið.“

„Mér finnst mikilvægt að hafa þor til að láta sig dreyma, vilja til að leggja hart að sér og hafa trú á því að maður geti staðið sig vel,“ segir Vala um það hvað hafi hjálpað henni til þess að komast á toppinn og hvað yngri iðkendur geti tileinkað sér.