Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Skemmtilegri Íþróttaviku Evrópu lokið

02.10.2020

Íþróttaviku Evrópu er nú lokið en hún fór fram 23. – 30. september um alla Evrópu. Fjölmargt var í boði í Íþróttavikunni hér á Íslandi en nokkur íþróttafélög buðu upp á opnar æfingar í vikunni. Ýmsir samfélagsmiðlaleikir voru einnig í gangi.

Kristín Birna Ólafsdóttir-Johnson, verkefnastjóri á Almenningsíþróttasviði ÍSÍ, segir undirbúning og framkvæmd Íþróttaviku Evrópu hafa gengið nokkuð vel miðað við aðstæður í samfélaginu: „Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að sporna gegn auknu hreyfingarleysi fólks í Evrópu og er þetta frábært verkefni hjá Evrópusambandinu. Það á sérstaklega við á þessum óvissutímum að fólk hreyfi sig, hvort sem er innandyra eða utandyra. Mikilvægt er fyrir alla að hreyfa sig reglulega og er sérstaklega mikilvægt fyrir fólk sem vinnur kyrrsetustörf að gefa sér tíma á vinnutíma til þess að hreyfa sig og um að gera að nýta hádegið í göngutúra eða einhvers konar líkamsrækt. Þó það sé aðeins ein vika á ári sem Evrópa sameinast undir merkjum Íþróttaviku Evrópu og fólk er hvatt til að hreyfa sig eru þetta skilaboð sem eiga við allt árið um kring. Við hjá ÍSÍ brugðum á það ráð að hvetja fólk til að hreyfa sig sjálft og deila því með okkur, t.d. með myndaleiknum á Instagram og dansáskoruninni á TikTok, í stað þess að fólk væri að koma saman í stórum hópum að hreyfa sig, eins og tíðkast hefur á BeActive daginn sem haldinn hefur verið hér í Laugardalnum undanfarin ár. Það stóð einnig til að halda viðburði fyrir framhaldsskólana á Íslandi í Íþróttavikunni en í staðinn var framhaldsskólum boðið að sækja um styrk til ÍSÍ til að gera eitthvað heilsueflandi í sínum skóla sem samræmir sóttvarnarreglum. Ágætis þátttaka var á meðal framhaldsskólanna og vonandi kom styrkurinn sér vel fyrir þá framhaldsskóla sem sóttu um. “ segir Kristín Birna.

Myndaleikur fór fram á Instagram en fólk var beðið um að myllumerkja myndir af sér eða öðrum á hreyfingu með #BeActiveIceland. Vinningshafar eru: 

  • Bryndís Inda gjafapoka frá Hreysti og þvottaefni frá SmellWell sem er sérstaklega ætlað fyrir íþróttaföt
  • Lilja Eldon fær íþróttatopp frá Brooks og þvottaefni frá SmellWell
  • Júlían Ari fær gjafapoka frá Hreysti og þvottaefni frá SmellWell
  • Heilsudrekinn fær gjafapoka frá Hreysti og þvottaefni frá SmellWell
  • Hlynur Hjartason fær gjafapoka frá Hreysti og þvottaefni frá SmellWell

Ingibjörg Magnúsdóttir sigraði í leiknum en hún birti skemmtilega mynd af nemendum sínum í Menntaskólanum á Akureyri í æfingum í tilefni af Íþróttavikunni. Myndina má sjá með fréttinni. Ingibjörg fær íþróttatopp, hlaupaskó og táfýlupúða í hlaupaskóna frá Brooks á Íslandi sem og mánaðarkort í World Class Iceland.

Einnig fór fram dansáskorun á TikTok og eftirtaldir voru dregnir út:

  • Ægir Íþróttafélag fatlaðra fær gjafapoka frá Hreysti
  • Vigdís Eva, Hólmfríður Arna, Lena Margrét, Sia og Gígja Stefáns fá allar gjafakort í Minigarðinn fyrir 4 og í Skautahöllina fyrir 2

Sigurvegari í dansáskoruninni er Eva Bryngeirs. Hún fær 25 þúsund króna gjafakort í Sportvörum og mánaðarkort í World Class Iceland.

ÍSÍ þakkar þeim sem tóku þátt í Íþróttaviku Evrópu á einn eða annan hátt fyrir þátttökuna og óskar þeim sem unnu verðlaun innilega til hamingju.

Um Íþróttaviku Evrópu
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir verkefninu Íþróttavika Evrópu hér á landi en markmiðið er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi og er sérstök áhersla lögð á að höfða til grasrótarinnar og að hvetja Evrópubúa til að sameinast undir slagorðinu #BeActive til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi.

Vefsíða Íþróttaviku Evrópu á Íslandi er www.beactive.is og hér má sjá Facebook síðu BeActive á Íslandi