Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Göngum í skólann - Sögur frá skólum

30.09.2020

Göngum í skólann fer fram um allt land þessa dagana. ÍSÍ hvetur starfsfólk skóla, foreldra og nemendur til að tileinka sér virkan ferðamáta til og frá skóla strax í upphafi skólaárs. Skráning í Göngum í skólann er í fullum gangi en nú þegar hafa 75 skólar skráð sig til þátttöku í verkefninu. Hægt er að skrá skólann til þátttöku hér á vefsíðu verkefnisins þar til 7. október sem er alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn. 

ÍSÍ fékk sendar tvær frásagnir frá skólum sem taka þátt í verkefninu, en það eru Hvaleyrarskóli og Grunnskóli Fjallabyggðar.

„Við hér í 5. bekk í Hvaleyrarskóla tökum þátt í Göngum í skólann og fórum í göngutúr á Ásvelli með stuttu stoppi við heilsuræktarstöð. Leiðin var bæði mæld í skrefum og kílómetrum. Frá skólanum og að brúnni við Reykjanesbrautina voru skrefin 2.928. Við Heilsuræktina var svo talað við nemendur um mikilvægi hreyfingar. Þetta var virkilega gaman og nemendur glaðir og kátir“.

„Síðustu vikurnar hafa nemendur í Grunnskóla Fjallabyggðar tekið þátt í verkefninu Göngum í skólann og hafa allir bekkir staðið sig mjög vel. Á föstudaginn 25. september 2020 voru veitt verðlaun fyrir þátttökuna þeim bekkjum sem stóðu sig best. Við skólann eru tvær starfsstöðvar: Á Siglufirði er 1.-5. bekkur og þar er nemendafjöldi rúmlega 100. Á Ólafsfirði er 6.-10. bekkur og þar er nemendafjöldi tæplega 100. Við Tjarnarstíg í Ólafsfirði var það 6. bekkur sem hlaut Silfurskóinn og var því í öðru sæti. Gullskóinn sjálfan hlaut síðan 7. bekkur með besta árangurinn. Við Norðurgötu á Siglufirði var það 3. bekkur sem hlaut Gullskóinn“.

Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Vefsíða Göngum í skólann

Myndin með fréttinni er frá Grunnskóla Fjallabyggðar.