Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

02.10.2020 - 03.10.2020

Ársþing FRÍ 2020

Ársþing Frjálsíþróttasambands Íslands verður...
16.10.2020 - 16.10.2020

Ársþing LH 2020

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
25

Nýtt íþróttahús vígt á Egilsstöðum

14.09.2020

Laugardaginn 12. september var haldin formleg vígsla á nýrri viðbyggingu sem Íþróttafélagið Höttur sá um að byggja í samstarfi við Fljótsdalshérað. Í nýbyggingunni er 1000 fermetra salur, útbúinn fyrir fimleikaiðkun ásamt fjórum hlaupabrautum og stökkgryfju fyrir frjálsíþróttir. Verkefnið hóst formlega árið 2015, með undirritun viljayfirlýsingar á milli aðila en formlegar framkvæmdir við húsið hófust eftir að fyrsta skóflustunga var tekin í nóvember árið 2018. Húsið sjálft kostaði 220 milljónir og búnaður 50 milljónir og lagði því sveitarfélagið Fljótsdalshérað samtals 270 milljónir til verksins.

Með samvinnu á milli Íþróttafélagsins Hattar og þeirra fyrirtækja sem komu að verki, ásamt framlagi fjölmargra sjálfboðaliða sem lögðu sitt af mörkum, náðist að byggja húsið upp á það hagkvæman hátt að eftir því er tekið um allt land. Með verkefninu hefur sannast að það er hægt að fá miklu áorkað með viljann að vopni og samstöðu í nærsamfélaginu.

Meðal gesta við vígslu nýja hússins voru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Við vígsluathöfnina sýndu iðkendur fimleikadeildar Hattar fimleikaatriði og viðstöddum gafst tækifæri til að skoða aðstöðuna.

Hafsteinn Pálsson 2. varaforseti ÍSÍ sótti viðburðinn fyrir hönd ÍSÍ, ávarpaði samkomuna og færði formanni Íþróttafélagsins Hattar blóm í tilefni dagsins. 

Ekki þarf að efast um að nýja húsið gefi íþróttalífinu á Egilsstöðum mikla innspýtingu og óskar ÍSÍ Íþróttafélaginu Hetti, Fljótsdalshéraði og íþróttaiðkendum á Fljótsdalshéraði og Austurlandi öllu innilega til hamingju með nýju aðstöðuna. 

Myndir/Íþróttafélagið Höttur

Fleiri myndir og upplýsingar um vígsluna og verkefnið er að finna á Fésbókarsíðu Hattar.

 

Myndir með frétt