Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Hestafólk tekur yfir Instagram ÍSÍ

03.07.2020

Hestaíþróttafólkið Hulda Gústafsdóttir, Hinrik Bragason og Gústaf Ásgeir Hinriksson verða með story á Instagram ÍSÍ á morgun, laugardaginn 4. júlí. Þau eru öll hluti af landsliðshópi Landssambands hestamannafélaga sem samtals telur 22 afreksknapa. 

Hulda og Hinrik hafa keppt í hestaíþróttum í yfir 30 ár. Á þeirra afrekaskrá eru heimsmeistaratitlar, Norðurlandatitlar, margir Íslandsmeistaratitlar og Landsmótssigrar. Hinrik hefur hlotið útnefningu sem Gæðingaknapi ársins og Hulda sem Íþróttaknapi ársins. Sonur þeirra, Gústaf Ásgeir, er einn af efnilegustu ungu knöpum landsins um þessar mundir, er að hasla sér völl meðal þeirra fullorðnu. Hann varð 40 sinnum Íslandsmeistari í yngri flokkum, sigraði Landsmót tvisvar sinnum í ungmennaflokki, er nú þegar orðinn Íslandsmeistari í fullorðinsflokki, varð heimsmeistari ungmenna og var í úrslitum á síðasta heimsmeistaramóti í flokki fullorðinna á sínu fyrsta HM sem fullorðinn knapi. Hann var útnefndur efnilegasti knapi ársins.
Öll þrjú, ásamt kærustu Gústafs, Jóhönnu Margréti Snorradóttur, starfa á hestamiðstöð Hinriks og Huldu, Árbakka í Landsveit við ræktun, kaup og sölu, kennslu og þjálfun hrossa. Þau stunda öll keppni í hestaíþróttum af fullu kappi á hæsta stigi. Þau vilja veita öðru fólki innsýn í keppnismennsku í hestaíþróttum og verður fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með þeim á Instagrami ÍSÍ á morgun.

Instagram ÍSÍ má sjá hér

Myndir með frétt