Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

IOC og WHO styrkja samstarfið

25.05.2020

Alþjóðaólympíunefndin (IOC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hafa nú undirritað nýjan samning sem felur í sér samvinnu um heilbrigðari lífsstíl fólks í gegnum íþróttir. Samninginn undirrituðu Thomas Bach forseti IOC og Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus framkvæmdastjóri WHO þann 16. maí sl. í höfuðstöðvum WHO í Genf. Bach sagði við tilefnið að mikilvægi íþrótta og líkamsræktar fyrir andlega og líkamlega heilsu hafi orðið enn ljósara síðastliðna mánuði á tímum kórónaveirunnar.

IOC mun njóta góðs af ráðleggingum WHO, sagði Bach, hvað varðar næstu skref eftir tíma kórónaveirunnar þar sem heilsa mun gegna mun mikilvægara hlutverki í stefnumótun. IOC skorar á stjórnvöld að taka betur tillit til ástundunar íþrótta í áætlanagerðum sínum vegna mikilvægis þeirra í forvörnum smitsjúkdóma sem og lífsstílssjúkdóma. Koma þurfi skilaboðum um heilbrigðan lífsstíl, hreyfingu, líkamsrækt og andlega rækt á markvissan hátt út til almennings um allan heim. Framkvæmdastjóri WHO sagðist ánægður með langvarandi samstarf við IOC: „Vinna WHO snýst ekki eingöngu um það að bregðast við sjúkdómum, heldur einnig um að hjálpa fólki að lifa heilbrigðu lífi og þetta samstarf við IOC mun stuðla að því. Líkamsrækt er einn mikilvægasti þátturinn að góðri heilsu og vellíðan.“ Hluti af samningi IOC og WHO snýst um samræmdar aðgerðir sem eiga að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og grasrótarstarfi um allan heim. Einnig að berjast gegn kyrrsetu fólks, þar sem kyrrseta er stór áhættuþáttur fyrir sjúkdóma eins og sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma og offitu, sem valda milljónum dauðsfalla um heim allan ár hvert.

Ráðleggingar frá WHO um ýmis málefni tengd kórónaveirunni áttu stóran þátt þeirri ákvörðun IOC að fresta Ólympíuleikunum í Tókýó 2020. IOC undirbýr Ólympíuleikana í Tókýó með það að markmiði að öll umgjörð leikanna verði örugg fyrir þátttakendur. Í tengslum við Ólympíuleikana mun samningurinn miða að því að efla heilsu íþróttafólks einkum hvað varðar andlega heilsu, vatnsgæði, loftmengun, varúðarráðstafanir ef upp kemur neyðarástand og heilsuöryggi

IOC og WHO hafa unnið saman síðan 1984, þegar fyrsta samkomulagið var undirritað. Þetta samstarf hefur leitt til fjölmargra sameiginlegra átaks- og samvinnuverkefna sem miða að því að efla heilsusamlegan lífsstíl og grasrótarstarf um allan heim og berjast gegn kyrrsetu, sem er helsti áhættuþáttur lífstílssjúkdóma.