Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

ÍSÍ greiðir tæplega 300 m.kr. til íþróttafélaga

19.05.2020

ÍSÍ hefur greitt til íþrótta- og ungmennafélaga tæplega 300 milljónir króna af 450 milljón króna framlagi ríkisins til íþróttahreyfingarinnar vegna áhrifa Covid-19. Úthlutunin byggir á tillögum vinnuhóps sem ÍSÍ skipaði þann 25. mars sl. til að móta tillögur að skiptingu þeirra fjármuna sem renna frá ríkinu til íþróttahreyfingarinnar til að mæta áhrifum Covid-19 og samþykktar voru af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og framkvæmdastjórn ÍSÍ. Tillögurnar bera með sér styrkúthlutanir til hreyfingarinnar, annars vegar með almennri aðgerð og hins vegar sértækri aðgerð.

Með almennu aðgerðinni er yfir tvö hundruð íþróttafélögum landsins veittur fjárhagslegur stuðningur vegna þess vanda sem samkomubannið hefur valdið. Úthlutunin er ekki íþyngjandi varðandi upplýsingagjöf frá félögunum því notaðar eru upplýsingar sem þegar liggja fyrir. 

Yfirlit yfir greiðslur til íþrótta- og ungmennafélaga.

214 íþrótta- og ungmennafélög innan ÍSÍ hlutu greiðslu með almennu aðgerðinni og er það í höndum aðalstjórna íþróttafélaga að ráðstafa framlaginu innan síns félags til þeirra deilda/verkefna sem hafa orðið fyrir tjóni vegna Covid-19. Framlagið er ekki styrkur heldur hugsað til að koma til móts við það tjón sem hefur orðið innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.

Þau viðmið sem unnið var eftir voru eftirfarandi:

Reiknireglan er eftirfarandi:

  1. Framlagið skiptist milli íþróttafélaga sem starfrækja skipulagt íþróttastarf fyrir börn og unglinga 6 - 18 ára og höfðu að lágmarki skráðar 20 iðkanir, 6-18 ára, samkvæmt starfsskýrslum sem skilað var inn í félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ árið 2019.
  2. Iðkendur í almenningsíþróttadeildum, samkvæmt skráningu ÍSÍ og UMFÍ, teljast ekki með vegna mismunandi túlkunar á skráningu iðkenda í þær deildir.
  3. Við skiptingu milli félaga skal farið eftir fjölda iðkana. Þar skal miðað við fjölda iðkana 6-18 ára samkvæmt talnagrunni ÍSÍ og UMFÍ 2019, að undanskildum iðkendum í almenningsíþróttadeildum. Vægi iðkana í útreikningi er óháð búsetu þeirra.
  4. Tillit er tekið til fjölgreinafélaga í reiknireglunni. Heildarframlag fjölgreinafélaga hækkar með veldisvexti fyrir hverja grein umfram eina og til og með fimmtu greininni.
  5. Úthlutun til einstaks íþróttafélags getur ekki orðið hærri en 3% af veltu félagsins samkvæmt staðfestum reikningsskilum 2019 fyrir árið 2018 (fjárhagslegar tölur frá árinu 2018).
  6. Samtals verður úthlutun á grundvelli ofangreinds 300 milljónir króna.

Sértækar aðgerðir

ÍSÍ mun kalla eftir umsóknum frá íþrótta- og ungmennafélögum, íþróttahéruðum og sérsamböndum ÍSÍ sem hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna Covid-19. Er þar meðal annars verið að horfa til sérstakra viðburða, móta og keppnishalds sem ekki gat orðið vegna Covid-19.

Verður það umsóknarferli kynnt nánar á næstunni og opnað fyrir umsóknir.