Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

IOC veitir styrki vegna Covid faraldursins

18.05.2020

Alþjóðaólympíunefndin (IOC) sendi frá sér fréttatilkynningu á dögunum varðandi styrki sem nefndin ætlar að veita vegna Covid faraldursins og afleiðinga hans á alþjóðaíþróttahreyfinguna. IOC áætlar að veita þurfi allt að 117 milljörðum króna í sérstakan sjóð til að mæta tapi vegna frestunar Ólympíuleikanna sem fara áttu fram í Tókýó í júlí nk. Leikunum hefur verið frestað um eitt ár og hefur það haft töluverðar fjárhagslegar afleiðingar fyrir skipulagsnefnd Ólympíuleikanna í Tókýó. IOC tilkynnti að skipulagsnefndin fái 95 milljarða króna til að takast á við kostnað sem fylgir frestuninni og til að bæta upp tap sem orðið hefur vegna hennar. Til alþjóðasérsambanda og ólympíunefnda fara 22 milljarðar króna svo hægt sé að halda áfram undirbúningi vegna Ólympíuleika, stuðningi við íþróttafólk og áframhaldandi þróun á íþróttahreyfingunni. Samböndin geta sótt um að fá hluta fjárins að láni ef þau eiga í lausafjárvandræðum vegna faraldursins. Ólympíusamhjálpin hefur einnig aukið við styrkveitingar sínar til íþróttafólks um 2 milljarða króna, en 1600 íþróttamenn frá 185 Ólympíunefndum eru á styrk hjá Ólympíusamhjálpinni ásamt ólympísku liði flóttafólks.

Vefsíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar má sjá hér.