Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Þríþrautarsambandið bjartsýnt á sæti á Ól

13.05.2020

Þríþrautarsamband Íslands (ÞRÍ) er 4 ára gamalt sérsamband innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, stofnað 27. apríl árið 2016. Þrátt fyrir að vera ungt sérsamband á ÞRÍ möguleika á því að eiga keppanda í ólympískri þríþraut á Ólympíuleikunum í Tókýó, þríþrautarkonuna Guðlaugu Eddu Hannesdóttur. Í ólympískri þríþraut eru syntir 1500 metrar, 40 kílómetrar hjólaðir og 10 kílómetrar hlaupnir. 

Valerie Maier, formaður ÞRÍ, segir Guðlaugu Eddu íþróttakonu sem ætli sér langt og að sambandið hafi fulla trú á henni og sé ákaflega hreykið af því að eiga mögulega keppanda á Ólympíuleikum. „Guðlaug Edda æfði í þrjú ár með danska þríþrautarlandsliðinu, en flutti síðan aftur til Íslands og æfir undir leiðsögn bandarísks þjálfara, Ian O'Brien. Hún hefði undir venjulegum kringumstæðum verið að æfa í Bandaríkjunum núna, en fær þess í stað vikulega sent æfingaplan að utan frá O´Brien“, segir Valerie.

Guðlaug Edda hefur keppt í flokki atvinnumanna í heimsbikarkeppni Alþjóðaþríþrautarsambandins frá árinu 2016 og staðið sig vel. Guðlaug náði t.d. mjög góðum árangri árið 2019, en hún endaði í 14. sæti á Evrópameistaramótinu í þríþraut og náði sínum besta árangri í heimsbikarskeppninni þegar hún endaði í 15. sæti á tímanum 2:02:41. Sá tími er hennar besti í greininni. „Þríþrautarsambandið átti fund með Guðlaugu nýlega. Rætt var m.a. um æfingaaðstöðu og stöðu á mótaplani. Ljóst er að Guðlaug gat ekki æft sund á tímum Covid-19, þar sem allar sundlaugar lokuðu í um tvo mánuði, en hún æfði hjólreiðar og hlaup, bæði inni og úti, og einbeitti sér mest að þeim greinum. Mikil ánægja ríkti þegar að sundlaugar opnuðu aftur, hjá Guðlaugu og öðru þríþrautarfólki, og æfir Guðlaug nú í Sundlaug Kópavogs.

Guðlaug þarf að setja upp nýtt mótaplan, vegna allra þeirra móta sem hætt var við eða frestað. Valerie segir að ekki sé enn ljóst hvort og hvenær næstu alþjóðlegu mót muni fara fram og einnig er óljóst hversu mörgum stigum þarf að safna á heimslista til að ná inn á Ólympíuleikana.Vonast Þríþrautarsambandið eftir svar frá Alþjóðaþríþrautarsambandinu (ITU-International Triathlon Union) sem fyrst varðandi mótadagskrá og stigasöfnun. Varðandi þríþrautarstarf á Íslandi segir Valerie að öllum mótum á Íslandi hafi verið frestað um sex vikur, en stefnt á að halda þau öll þegar tími gefst og ástandið í samfélaginu sé orðið betra: „Við breytum dagsetningu og formi mótanna eftir þörf. Það sem flestir eru að hugsa um núna er hversu fínt það er að geta æft aftur allar þjár greinarnar. Íþróttafélögin hugsa vel um sína iðkendur og aðstoða eins og hægt er. Íþróttafólkið er sjálft að peppa hvert annað og samstaða ríkir. Guðlaug Edda ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni á sem flestum mótum á Íslandi í sumar og er það mikið gleðiefni fyrir íþróttina á Íslandi. Allir virðast vera mjög spenntir fyrir sumrinu og æfingum og keppni í þríþraut aftur“, segir Valerie.

Myndirnar með fréttinni eru annars vegar af Valerie og hins vegar af Guðlaugu Eddu.

Myndir með frétt