Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Fundur með EOC um áhrif Covid-19

07.05.2020

Framkvæmdastjórn Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC) hélt sinn annan fjarfund á árinu þann 29. apríl síðastliðinn. Forseti EOC, Janez Kocijančič, stýrði fundinum sem snérist að mestu leyti um íþróttastarfsemi í Evrópu á þessum fordæmalausu tímum. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, er í framkvæmdastjórn EOC og sat fjarfundinn. Á fundinum voru áhrif Covid-19 á íþróttir í álfunni rædd og hvernig skuli taka á brottfalli úr íþróttum í kjölfarið á faraldrinum. Einnig voru ræddar þær leiðir sem hægt væri að fara til að aðstoða þær 50 Ólympíunefndir sem eru innan EOC.

Nýlega sendi EOC út könnun til allra 50 Ólympíunefndanna innan Evrópu. Könnuninni var hægt að svara frá 6. – 14. apríl 2020. Markmiðið var að fá skýrari sýn á áhrif Covid-19 á starfsemi íþróttahreyfingarinnar og íþróttafólk álfunnar. Svörun var góð því 45 af 50 nefndum tóku þátt í könnuninni. Eins og við var að búast var þetta mikið högg fyrir starfsemi og fjármál Ólympíunefndanna og aðgengi afreksíþróttafólks að íþróttamannvirkjum og æfingaaðstöðu var verulega skert.

Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér.

Myndin með fréttinni kemur frá EOC og er frá fjarfundinum.