Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Áhersla á hreyfingu aldraðra

07.05.2020

Í nýrri stefnu í íþróttamálum Reykjavíkur er mikil áhersla lögð á hreyfingu almennings. Markmiðið er að minnst 70% borgarbúa hreyfi sig rösklega í 30 mínútur þrisvar í viku. Lögð er áhersla á að styðja þurfi við aukna þátttöku aldraðra og gæta þurfi að því að aðstaða í mannvirkjum og á grænum svæðum geti nýst þeim til hreyfingar og íþróttaiðkunar. Stefnuna má sjá hér.

Hrönn Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, hefur yfirumsjón með nefnd á vegum ÍSÍ sem ber heitið Nefnd um íþróttir 60+, en hún var stofnuð árið 2005. „Markmiðið með nefndinni er að efla íþróttastarf eldri borgara, vinna að fræðslumálum og standa fyrir átaksverkefnum eftir atvikum um land allt. Nefndin hittist reglulega yfir árið og hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum í gegnum þau 15 ár sem hún hefur starfað sem hafa mælst vel fyrir,“ segir Hrönn.

Að gefnu tilefni má nefna það að ÍSÍ gaf út fræðslubæklinginn „Líkamsæfingar fyrir fólk á besta aldri“ sem hvatningu til fólks um að stunda reglulega líkamsrækt. Hefur bæklingurinn mælst vel fyrir í því ástandi sem ríkt hefur í þjóðfélaginu sl. vikur. Þar er að finna fjölbreyttar æfingar sem allir ættu að geta stundað daglega. Meðal æfinga eru ganga, æfingar í vatni, æfingar fyrir háls og herðar, bak og kvið, fætur og arma. Fróðleikur um gildi líkamsræktar fyrir heilsuna er settur fram og sömuleiðis holl ráð um næringu, svefn, slökun, vernd gegn beinþynningu og fleira. Hægt er að nálgast eintak af bæklingnum á skrifstofu ÍSÍ endurgjaldslaust.

Líkamsæfingar fyrir fólk á besta aldri