Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Hjólað í vinnuna hafið

06.05.2020

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ræsti Hjólað í vinnuna með hátíðlegum hætti í morgun í Þróttaraheimilinu í Laugardal. Setningarhátíðin var einungis opin boðsgestum og á dagskrá voru hressileg hvatningarávörp ásamt uppistandi Jóhanns Alfreðs Kristjánssonar sem sló rækilega í gegn. Ávörp héldu Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. Öll voru þau sammála um mikilvægi hreyfingar landsmanna og verkefnisins Hjólað í vinnuna í tengslum við það.

Gestir setningarhátíðarinnar hjóluðu síðan verkefnið formlega af stað frá Þróttaraheimilinu og tóku hring í Laugardalnum.

Hjólað í vinnuna 2020

Skráðu þig til leiks:
1. Farið er inná vef Hjólað í vinnuna, www.hjoladivinnuna.is.
2. Smellt er á Innskráning efst í hægra horninu.
3. Ef þú átt ekki aðgang er einfalt að stofna aðgang með því að skrá þig inn með Facebook eða búðu þér til notendanafn og lykilorð.
4. Velja má á milli þess að stofna vinnustað (þarf að gera ef vinnustaðurinn finnst ekki í fellilista) eða stofna/ganga í lið (þá er búið að stofna vinnustaðinn).
5. Skráningu lokið.

Hægt er að nálgast ítarlegar skráningarleiðbeiningar inn á vef Hjólað í vinnuna en ef upp koma vandamál við skráningu er hægt að hafa samband beint við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í síma 514-4000 eða senda tölvupóst á netfangið hjoladivinnuna@isi.is. ÍSÍ hvetur landsmenn til að hreyfa sig daglega og ekki síst taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem Hjólað í vinnuna er.

Nánari upplýsingar má finna á www.hjoladivinnuna.is ásamt síðum á Facebook og Instagram.

Myndir með frétt