Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Hjólað í vinnuna hefst á morgun

05.05.2020

Nú styttist í að ÍSÍ ræsi keppnina Hjólað í vinnuna 2020 en verkefnið verður sett í átjánda sinn á morgun þann 6. maí. Keppnin stendur yfir til 26. maí nk. Opnað hefur verið fyrir skráningu hér.

ÍSÍ hvetur fólk til að koma verkefninu Hjólað í vinnuna á framfæri á sínum vinnustað. Í gegnum árin hefur myndast gríðarlega góð stemmning á vinnustöðum meðan á verkefninu stendur. Von ÍSÍ er sú að svo verði í ár líka þrátt fyrir fordæmalausa tíma. Það er vor í lofti og hreinsanir á stígum hafnar í mörgum bæjarfélögum. Það er líka um að gera að fara yfir gíra, bremsur, dekk og annan búnað hjólsins.

Um þessar mundir vinna margir heiman frá sér en það er samt sem áður ekkert því til fyrirstöðu að taka þátt. Útfærslan er einföld. Þú gengur, hjólar eða ferðast með öðrum virkum hætti þá vegalengd er samsvarar vegalengd til og frá vinnu og skráir þá kílómetra inn í kerfið. Hægt er að byrja eða enda vinnudaginn á því að ganga eða hjóla til og frá vinnu að heiman.

Að skrá sig til leiks:
1. Farið er inná vef Hjólað í vinnuna, www.hjoladivinnuna.is.
2. Smellt er á Innskráning efst í hægra horninu.
3. Ef þú átt ekki aðgang er einfalt að stofna aðgang með því að skrá þig inn með Facebook eða búðu þér til notendanafn og lykilorð.
4. Velja má á milli þess að stofna vinnustað (þarf að gera ef vinnustaðurinn finnst ekki í fellilista) eða stofna/ganga í lið (þá er búið að stofna vinnustaðinn).
5. Skráningu lokið.

Hægt er að nálgast ítarlegar skráningarleiðbeiningar inn á vef Hjólað í vinnuna en ef upp koma vandamál við skráningu er hægt að hafa samband beint við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í síma 514-4000 eða senda tölvupóst á netfangið hjoladivinnuna@isi.is.

Á vefsíðu verkefnisins er yfirlit yfir allar helstu reglur Hjólað í vinnuna. Á síðunni er einnig hægt að nálgast efni sem hægt er að prenta út og nota til hvatningar og kynningar.

Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland hvetur landsmenn til að hreyfa sig daglega og ekki síst taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem Hjólað í vinnuna er.