Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
28

Setningarhátíð Hjólað í vinnuna 2020

30.04.2020

Hjólað í vinnuna verður sett með hátíðlegum hætti miðvikudaginn 6. maí nk. kl. 8:30 í Þróttaraheimilinu í Laugardal. Flutt verða stutt og hressileg hvatningarávörp og mun uppistandarinn Jóhann Alfreð Kristinsson halda uppi stemningu. Setningarhátíð verkefnisins er aðeins fyrir boðsgesti.

Ávörp flytja:

  • Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ
  • Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
  • Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra
  • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur
  • Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn 

Að ávörpunum loknum munu gestir hjóla verkefnið formlega af stað.


Hjólað í vinnuna 2020 á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Heilsu- og hvatningarverkefnið Hjólað í vinnuna hefst í átjánda sinn þann 6. maí nk. Það stendur að vanda yfir í þrjár vikur eða til 26. maí. Á þeim tíma eru landsmenn hvattir til að hreyfa sig og nýta sér heilsusamlegar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur með því að hjóla, ganga eða nota annan virkan ferðamáta. 

Við þær sérstöku aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu er nauðsynlegt að huga vel að heilsunni og daglegri hreyfingu. Einnig er mikilvægt fyrir vinnustaði landsins að huga vel að starfsandanum á þessum fordæmalausu tímum. Verkefnið Hjólað í vinnuna er góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman, en auðvitað þarf á sama tíma að virða 2 metra fjarlægðarmörkin. Hjólreiðar eru bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti og jafnframt frábær útivist og öflug líkamsrækt.

Keppnisgreinar í Hjólað í vinnuna eru tvær:

  • Vinnustaðakeppni þar sem keppt er um flesta þátttökudaga hlutfallslega miða við heildarfjölda starfsfólks á vinnustaðnum. Keppt er í átta keppnisflokkum út frá stærð vinnustaða.
  • Kílómetrakeppni þar sem keppt er á milli liða um annars vegar heildarfjölda kílómetra og hins vegar hlutfall kílómetra miða við fjölda liðsmanna í liði. 

Í ár hvetur ÍSÍ þá sem vinna heima hjá sér að byrja eða enda vinnudaginn á því að hjóla, ganga eða nýta annan virkan ferðamáta sem nemur kílómetrum til og frá vinnu. Einfaldara getur það ekki verið og allir geta tekið þátt.  

Allar upplýsingar um Hjólað í vinnuna er að finna á vefsíðu verkefnisins www.hjoladivinnuna.is.