Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

5

Við berjumst fyrir draumnum

15.04.2020

Áætlanir margra hafa breyst eftir að ljóst var að Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 yrði frestað um eitt ár, en leikarnir munu fara fram frá 23. júlí til 8. ágúst 2021. Einn íslenskur badmintonspilari stefndi á þátttöku á Ólympíuleikunum, Kári Gunnarsson en hann er áttfaldur Íslandsmeistari í einliðaleik karla. Kári hafði ekki unnið sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Tókýó þegar að ákvörðun var tekin um að fresta leikunum, en lokalisti yfir þátttakendur hefði undir venjulegum kringumstæðum verið birtur þann 1. maí nk. Kári hefur sl. þrjú ár keppt á alþjóðlegum mótum um heim allan til þess að koma sér upp heimslistann og fá keppnisrétt á Ólympíuleikunum. Hann hefur nú þurft að endurskipuleggja áætlanir sínar og stefnir á Ólympíuleikana 2021. 

„Eins og staðan er núna er ég að æfa á Íslandi og bíða eftir tilkynningum frá Alþjóðabadmintonsambandinu og Alþjóðaólympíunefndinni hvernig málum verði háttað með að komast inn á Ólympíuleikana. Þegar ákveðið var að fresta leikunum og fjölmörgum alþjóðlegum mótum frestað eða aflýst, var ég ekki á meðal þeirra 40 í einliðaleik karla sem komast inn, en ég átti fínan möguleika á að komast inn á leikana. Sex mótum sem ég hafði skráð mig á var aflýst og ég hafði stefnt á að toppa á þeim. Einnig hefur akademíunni sem ég æfi í í Danmörku verið lokað næstu vikur. Ég ákvað að koma heim til Íslands og gera mitt besta til þess að æfa vel hér. Núna er bara mikil óvissa. Það er ekkert annað í stöðunni en að sætta sig við þá hluti sem maður hefur ekki stjórn á og berjast fyrir draumnum um að keppa á Ólympíuleikunum eins lengi og hægt er“, segir Kári.

Fjórir íslenskir badmintonspilarar hafa náð að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum síðan að badminton varð að keppnisgrein á leikunum árið 1992. Það ár kepptu Árni Þór Hallgrímsson og Broddi Kristjánsson í einliðaleik og tvíliðaleik og Elsa Nielsen í einliðaleik. Árið 1996 keppti Elsa í einliðaleik og árin 2008 og 2012 keppti Ragna Ingólfsdóttir í einliðaleik.

Kjartan Valsson, framkvæmdastjóri Badmintonsambands Íslands (BSÍ), segir að mikil óvissa sé með áframhaldið í badmintonheiminum í dag: „Alþjóðabadmintonsambandið hefur ekki enn gefið út hvort það verði breytingar og þá hverjar þær verði í kringum það að ná inn á Ólympíuleikana. Við hjá BSÍ og Kári sjálfur gerum þó ráð fyrir að tímabilið fyrir leikana verði lengt og að hann muni ná nokkrum mótum til að reyna að komast inn“.

Varðandi badmintonið á Íslandi segir Kjartan að engar skipulagðar æfingar fari fram núna, eins og ráðleggingar frá Almannavörnum kveða á um: „Badmintonfélögin eru ekki með neinar æfingar eins og staðan er núna, þ.e. ekki í íþróttahúsunum. Einhver félög eru með skipulagðar heimaæfingar og þess háttar. Badmintonsambandið er ekki með neinar landsliðsæfingar í gangi og hætt hefur verið við mót eða þeim verið frestað. Badmintonsambandið tilkynnti nýlega að Íslandsmóti unglinga og Meistaramóti Íslands verði frestað um óákveðinn tíma. Það er ekki um verulegt fjárhagslegt tjón að ræða í badmintoni á Íslandi vegna þessa, en aðallega er um að ræða röskun á mótahaldi“, segir Kjartan.

Á myndunum með fréttinni má sjá annars vegar karlalandslið Íslands í badmintoni, þar er Kári þriðji frá vinstri og hins vegar kvennalandslið Íslands.

Kári og BSÍ á samfélagsmiðlum

Vilji fólk fylgjast með Kára á leið sinni á Ólympíuleikana í Tókýó þá er hægt að fylgja Instagram síðu hans hér.

Vefsíða BSÍ

Facebook síða BSÍ

Myndir með frétt