Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

5

500 milljónir til íþrótta- og æskulýðsstarfs

15.04.2020

Samkvæmt frétt á vefsíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis í gær munu 500 milljónir króna renna til íþrótta- og æskulýðsstarfs til að mæta áhrifum COVID-19.

Vinnuhópurinn sem framkvæmdastjórn ÍSÍ skipaði 25. mars síðastliðinn vinnur að útfærslum varðandi skiptingu þess fjár sem renna mun til íþrótta af þessum 500 milljónum. Guðrún Inga Sívertsen, fyrrverandi varaformaður KSÍ leiðir hópinn og með henni eru Hörður Þorsteinsson formaður Badmintonfélags Hafnarfjarðar og fyrrverandi framkvæmdastjóri GSÍ og Sigurjón Pétursson varaforseti Alþjóðakraftlyftingasambandsins sem einnig er fyrrum formaður KRAFT og fyrrum varaformaður HSÍ.

Stuðningur þessi byggir á þingsályktunartillögu um fjárfestingarátak stjórnvalda til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins, sem samþykkt var á Alþingi þann 30. mars sl. Hefðbundin menningarstarfsemi og íþrótta- og æskulýðsstarf hefur nánast lagst af á undanförnum vikum og stór hópur fólks og félaga orðið fyrir miklum tekjumissi.

„Það er mikilvægt að fjárveiting þessi skili sér hratt og vel út í samfélagið, svo hjólin haldi áfram að snúast og tjónið af núverandi aðstæðum verði sem minnst. Heildaráhrif COVID-19 eiga eftir að skýrast og mögulega þarf meiri stuðningur að koma til, svo þessi mikilvæga starfsemi blómstri. Við munum taka afstöðu til þess þegar frekari upplýsingar liggja fyrir,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í frétt ráðuneytisins.