Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Ólympíuleikunum frestað til 2021

24.03.2020

Forsætisráðherra Japans, Shinzō Abe og Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC), samþykktu í kjölfar viðræðna í dag að fresta Ólympíuleikunum sem fram áttu að fara í Tókýó í júlí nk. Ólympíumóti fatlaðra hefur jafnframt verið frestað. Rétt í þessu birtist sameiginleg yfirlýsing á vefsíðu IOC. Í yfirlýsingunni segir einnig að halda skuli leikana í síðasta lagi sumarið 2021.

Yfirlýsinguna má sjá hér.

Markmið IOC hefur ávallt verið að standa vörð um hagsmuni íþróttafólks. Meginregla IOC hefur verið sú að ákvarðanir varðandi Ólympíuleikana 2020 byggist á því að vernda íþróttafólkið fyrir áhrifum Covid-19. Með frestun verður komið í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar og þá getur íþróttafólkið náð ákjósanlegri undirbúningi fyrir leikana en ef tekið er mið af stöðunni í dag.

Í yf­ir­lýs­ing­unni seg­ir að hin for­dæma­lausa og óút­reikn­an­lega út­breiðsla Covid-19 veirunn­ar hafi gjör­breytt aðstæðum um heim allan. Vegna þró­un­ar mála og upp­lýs­inga frá Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­inni (WHO) í dag hafi for­seti IOC og for­sæt­is­ráðherra Jap­an kom­ist að sameiginlegri niðurstöðu um að frestun leikanna væri óumflýjanleg fyrir hagsmuni alþjóðasamfélagsins, íþróttafólksins og allra þeirra sem koma að Ólymp­íu­leikun­um.

Ólympíuleik­arn­ir, og Ólymp­íu­mót fatlaðra, verða áfram kenndir við Tókýó 2020.

Þetta er í fyrsta skipti sem Ólympíuleikunum hefur verið frestað en þrívegis áður hefur Sumarólympíuleikunum verið aflýst (1916, 1940 og 1944) og Vetrarólympíuleikunum tvívegis (1940 og 1944).