Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
8

74. ársþing KSÍ

24.02.2020

74. ársþing Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) fór fram þann 22. febrúar í Klifi, Ólafsvík. Nokkrar tillögur lágu fyrir þinginu og er hægt að lesa um afgreiðslu þeirra hér á vefsíðu KSÍ. Stjórn KSÍ helst óbreytt, en engin mótframboð bárust.

Á þinginu hlaut Ungmennafélag Langnesinga Grasrótarverðlaun KSÍ, Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) hlaut Dómaraverðlaun KSÍ og Íþróttafélagið Völsungur hlaut Jafnréttisverðlaun KSÍ. Lúðvík S. Georgsson var sæmdur Heiðurskrossi KSÍ.

Stjórn KSÍ kynnti þá ákvörðun sína að gera kröfu um að hlutfall kvenna verði a.m.k. 30% í stjórnum og nefndum KSÍ innan tveggja ára. Borghildur Sigurðardóttir formaður starfshóps um heildarendurskoðun kvennaknattspyrnu og stefnumótun til framtíðar kynnti minnisblað frá einum af starfandi vinnuhópum um málið í tengslum við ársþingið. Verkefni hópsins er að koma með tillögur að tímasettum aðgerðum til að auka hlut kvenna í íslenskri knattspyrnu sem KSÍ hafi forystu um að innleiða í samvinnu við aðildarfélög sín. Vinnuhópurinn áætlar að leggja fram aðgerðaáætlun fyrir sumarið 2020.

Fjórir leikmenn A landsliðs kvenna voru heiðraðir á þinginu, en um er að ræða leikmenn sem hafa náð þeim árangri undanfarið að leika 100 landsleiki með liðinu. Það voru Sara Björk Gunnarsdóttir, Hallbera G. Gísladóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Rakel Hönnudóttir. Allar þessar landsliðskonur eru ennþá í eldlínunni og verða því landsleikirnir töluvert fleiri á næstunni.

Á þinginu voru veittar viðurkenningar fyrir háttvísi í deildarkeppni. Dragostytturnar eru veittar í Pepsi-deild karla og hlaut Knattspyrnufélag Reykjavíkur (KR) þau verðlaun og í Inkasso deildinni hlaut Keflavík verðlaunin. Sérstök háttvísiverðlauneru veitt í öðrum deildum og þau hlutu í Pepsi deild kvenna Stjarnan, 1. deild kvenna: Augnablik, 2. deild kvenna: Grótta, 2. deild karla: Völsungur, 3. deild karla: KV og Reynir S. og 4. deild karla: Berserkir

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir var fulltrúi ÍSÍ á þinginu og flutti þar ávarp.

Myndir með frétt