Þjálfaranámskeið hjá HSÍ
Handknattleikssamband Íslands (HSÍ) hefur undanfarið ár staðið fyrir Mastercoach námskeiði fyrir íslenska handknattleiksþjálfara, en þetta er í fyrsta skipti sem slíkt námskeið er haldið hér á landi. EHF Mastercoach er æðsta gráða þjálfaramenntunar í handbolta í Evrópu. Fór fyrsti hluti námskeiðsins fram í mars 2019. Þátttakendur í námskeiðinu eru flestir reynslumiklir þjálfarar sem koma að þjálfun meistaraflokka hér heima og hafa víðtæka þekkingu á íþróttinni. Hópurinn hittist sjö sinnum yfir árið og í desember síðastliðnum útskrifuðust 23 handknattleiksþjálfarar með Mastercoach gráðu EHF. Þess má geta að í ár verða þjálfarar sem þjálfa landslið og lið í Meistaradeild Evrópu skyldugir til að hafa lokið þessari menntun.
Margir af reynslumestu þjálfurum Íslands komu að kennslu á námskeiðinu, meðal annarra Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands og Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Japans.
Háskólinn í Reykjavík sá um bóklegu kennsluna. Námskeiðið var styrkt af Ólympíusamhjálpinni.