Júlían kraftlyftingamaður sýnir sinn dag
Júlían J. K. Jóhannsson, kraftlyftingamaður, ætlar að leyfa fólkinu í landinu að fá innsýn í sitt líf í dag, mánudaginn 9. desember. Júlían mun taka yfir Instagram síðu ÍSÍ @isiiceland og taka upp sinn dag á Instagram Story.
Júlían hefur náð glæsilegum árangri í kraftlyftingum síðastliðin ár. Á síðasta ári setti Júlían heimsmet, Evrópumet og mörg Íslandsmet, hann náði 3. sæti á heimsmeistaramótinu 2018 og var í 2. sæti í kjöri á Íþróttamanni ársins 2018. Nú nýverið setti Júlían heimsmet í réttstöðulyftu í +120 kg flokki á HM 2019, er hann lyfti 405,5 kg. Hann bætti eigið heimsmet um hálft kíló og hreppti auk þess bronsverðlaunin í +120 kg flokki í samanlögðum greinum á mótinu. Hann er í miklu stuði þessa dagana og segist hvergi nærri hættur, enda eigi hann svo sannarlega eftir að toppa.
Það verður spennandi að fylgjast með degi í lífi Júlíans í dag. Von er á að fleira íslenskt afreksíþróttafólk taki við Instagram síðu ÍSÍ á næstu vikum, en þeir sem vilja fylgjast með íslensku afreksíþróttafólki æfa, keppa og takast á við hversdagsleikann geta fylgt Instagram síðu ÍSÍ og fengið upplifunina beint í símann.