Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Fyrirlestur um lyfjamál

05.12.2019

Á dögunum flutti Lasse Bækken frá Lyfjaeftirliti Noregs (Anti-Doping Norway) erindi undir yfirskriftinni „Vegabréf íþróttamannsins“. Fyrirlesturinn fór fram í húsakynnum ÍSÍ og var á vegum Lyfjaeftirlits Íslands. 

Tilgangur „vegabréfs íþróttamannsins“, e. Athlete Biological Passport (ABP), er að fylgjast með ákveðnum líffræðilegum breytum hjá íþróttafólki sem gætu bent til eða staðfest lyfjamisferli, án þess að það komi fram við hefðbundna greiningu sýna. ABP er rafræn skrá sem sýnir gildi ákveðinna líffræðilegra í bæði blóð- og þvagsýni í hverju lyfjaprófi hjá einstaklingnum. Ákveðin viðmiðunarmörk eru fyrir hverja breytu og ef breytan fellur utan þeirra marka getur það verið merki um lyfjamisnotkun og hægt er að ákæra íþróttamenn fyrir lyfjamisnotkun vegna slíkra frávik að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Alþjóðalyfjaeftirlitið setti ABP fyrst á stofn fyrir blóðsýni árið 2009. Árið 2014 bættist svo við ABP fyrir vefaukandi stera.

Þannig getur ABP hjálpað til við að upp kemst um lyfjamisferli þó að niðurstaða lyfjaprófs sé neikvæð. Í fyrirlestrinum var fjallað um hvernig ABP getur nýst í flest öllum íþróttagreinum og sýnd dæmi um óeðlileg lífssýni jafnvel þó að engin efni á bannlista hafi fundist. Einnig ræddi Lasse stuttlega um hvernig sýnt var fram á mikilvægi ABP í að koma upp um skipulagt lyfjamisferli í Rússlandi.

Vefsíða Lyfjaeftirlits Íslands