Örn Andrésson sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ
Örn Andrésson var í dag sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ á Formannafundi ÍSÍ 2019 í Laugardalshöllinni.
Örn á merka sögu sem leiðtogi í íþróttahreyfingunni. Hann sat samfellt í stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur í 32 ár, var formaður badmintondeildar Víkings í 4 ár og um tíma var hann formaður Borðtennissambands Íslands.
Örn var kjörinn inn í varastjórn ÍSÍ árið 1996 en svo í aðalstjórn sameinaðra samtaka á stofnþingi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands árið 1997 og sat þar samfellt í 23 ár eða þar til í vor. Örn var lengi formaður Afreks- og Ólympíusviðs og formaður Afrekssjóðs ÍSÍ ásamt því að sinna fjölmörgum öðrum ábyrgðarstörfum fyrir sambandið og hreyfinguna. Framlag Arnar til afreksíþróttastarfsins í gegnum tíðina er ómetanlegt.
Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ afhenti Erni heiðursviðurkenninguna í upphafi Formannafundar ÍSÍ.
ÍSÍ óskar Erni innilega til hamingju með viðurkenninguna og allt hans góða starf í þágu íþróttahreyfingarinnar í landinu.