Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Tveir áratugir á Akureyri

25.10.2019

Þann 1. september síðastliðinn voru 20 ár síðan skrifstofa ÍSÍ á Akureyri var sett á laggirnar. Skrifstofan var lengi vel við Glerárgötuna en flutti svo í nýtt og rúmbetra húsnæði á síðasta ári í Íþróttahöllinni við Skólastíg. Í Íþróttahöllinni eru Íþróttabandalag Akureyrar og Skíðasamband Íslands einnig með skrifstofur sínar og er styrkur fyrir starfsmenn þessara þriggja sambanda að geta leitað hver í annars smiðju, ef á þarf að halda.

Akureyrarbær hefur stutt vel og dyggilega við bakið á skrifstofu ÍSÍ á Akureyri allar götur frá opnun skrifstofunnar, ekki síst með að útvega aðstöðu fyrir skrifstofuna. Ef ekki hefði komið til sá stuðningur hefði ÍSÍ ekki verið fært að halda úti rekstri útibús á staðnum.

Svo skemmtilega vill til að sami starfsmaðurinn hefur verið að störfum fyrir ÍSÍ allt frá opnun skrifstofunnar og átti því 20 ára starfsafmæli sama dag og ÍSÍ fagnaði tuttugu ára starfsemi skrifstofunnar á Akureyri.

Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri hefur setið fleiri þing og fundi en margur og verið fulltrúi ÍSÍ á fjölmörgum viðburðum tengdum íþróttum og íþróttastarfsemi á Norður- og Austurlandi. Hann hefur umsjón með gæðaverkefnunum Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og Fyrirmyndarhérað ÍSÍ, sinnir menntun þjálfara og sér um dagleg störf skrifstofunnar á Akureyri, svo eitthvað sé nefnt. Viðar er góður heim að sækja og tók hann vel á móti stjórn og starfsfólki ÍSÍ þegar það fundaði í vikunni í sameiginlegri fundaraðstöðu ÍSÍ, ÍBA og SKÍ í Íþróttahöllinni.