Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
26

Lárus og Líney á ársþingi Heimssambands Ólympíunefnda

18.10.2019

Ársþing Heimssambands Ólympíunefnda (ANOC) fer fram í Doha í Katar í gær og í dag. Fyrir utan hefðbundna dagskrárliði verða fluttar stöðuskýrslur vegna ólympískra verkefna sem eru nýafstaðin og þeirra sem framundan eru. Ber þar hæst Vetrarólympíuleika ungmenna í Lausanne og Sumarólympíuleikana í Tókýó á næsta ári. 

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir sækja þingið fyrir hönd ÍSÍ. Yfir 1.000 fulltrúar frá 204 Ólympíunefndum sækja þingið sem haldið er í tengslum við fyrstu Heimsstrandarleika ANOC sem fóru fram dagana 10.-16. október á Katara ströndinni og Gharafa Club. Ríflega 1.200 keppendur frá 97 löndum tóku þátt í 13 íþróttagreinum á leikunum. Ísland átti ekki þátttakanda á leikunum að þessu sinni.
Lárus og Líney Rut fylgdust með keppni á leikunum í vikunni og sáu meðal annars danska kvennalandsliðið í strandhandknattleik vinna gullverðlaun á lokadegi leikanna í gær.

Það hefur verið forvitnilegt að fylgjast með viðburðum þessara fyrstu Heimsstrandarleika hér í Doha. Öll aðstaða er til fyrirmyndar og hefur verið vel að leikunum staðið á alla lund. Vonandi getum við teflt fram keppendum á næstu leikum sem áætlað er að verði eftir fjögur ár. Þó að það sé áskorun að reyna að stunda sumar af þessum keppnisgreinum í aðstæðum heima á Íslandi þá stefnum við að þátttöku í einhverjum þeirra í framtíðinni, ef leikarnir festa sig í sessi” sagði forseti ÍSÍ þegar skrifstofa ÍSÍ sló á þráðinn til hans til Doha á síðasta keppnisdegi leikanna.