Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Göngum í skólann - Sögur frá skólum

26.09.2019

Göngum í skólann verkefnið er í fullum gangi þessa dagana og stendur til 2. október nk. Þónokkrar frásagnir hafa verið sendar inn frá skólum sem tekið hafa þátt í Göngum í skólann. 

Grunnskólinn á Hólmavík teiknaði tré úr pappír og hengdi upp í miðjum skólanum. Ef nemandi hefur notað virkan ferðamáta á leið sinni í skólann merkir hann nafnið sitt á laufblað og hengir upp á tréð. Verðlaun verða veitt fyrir þann bekk sem notar virkan ferðamáta mest.

Grunnskólinn á Ísafirði tók alla nemendur í fjallgöngu. Ártúnsskóli hvetur nemendur og starfsfólk skólans að fara út á hverjum degi og hlaupa sérstakan hring á skólalóðinni. Waldorfsskólinn Sólstafir fór með öll börn skólans í eltingaleik í Öskjuhlíð og elduðu allir saman hádegismat í skóginum.

Það eru fleiri skemmtilegar frásagnir á vefsíðu Göngum í skólann og þær má lesa hér

Tilvalið er að hvetja börn til að velja sér virkan ferðamáta í skólann strax í byrjun skólaárs. Mikilvægt er að fara vel yfir umferðarreglur með börnunum en hægt er að fara á umferðarvefinn www.umferd.is sem er fræðsluvefur um umferðarmál fyrir nemendur í grunnskóla, kennara og foreldra. Vefurinn er til þess fallinn að auka áhuga á umferðaröryggi í skólastarfinu. Þar að auki er mikilvægt að ökumenn gæti sérstakrar varúðar í nálægð við skóla- og íþróttasvæði.

 

Um verkefnið
Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. 

Alls 74 skólar eru skráðir til þátttöku í verkefninu í ár, en enn er hægt að skrá sinn skóla til þátttöku.

Vefsíða Göngum í skólann.

Skráning í Göngum í skólann.    

Myndirnar með fréttinni eru frá Grunnskólanum á Ísafirði, Waldorfsskólanum Sólstafir og Grunnskólanum á Hólmavík. 

Myndir með frétt