Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Ólympíuhlaup ÍSÍ sett á Ísafirði

19.09.2019

Ólympíuhlaup ÍSÍ 2019 var sett á Ísafirði í gær með aðkomu fjögurra grunnskóla á svæðinu, Grunnskóla Ísafjarðar, Grunnskólans í Bolungarvík, í Súðavík og á Suðureyri. Það var HSV sem aðstoðaði við að koma þessu í kring en um 700 börn og kennarar af svæðinu tóku þátt. Blossi lukkudýr Smáþjóðaleikanna 2015 var á staðnum og sá um upphitun fyrir hlaupið og vakti að venju mikla lukku. 

Að loknu hlaupi fengu allir nemendur mjólk í boði Mjólkursamsölunnar. Yngsta stigið fór aftur í skólann, en miðstig og unglingastig skólanna fékk fræðslu í íþróttahúsinu. Um fræðsluna sáu þeir Snorri Einarsson ólympíufari í skíðagöngu, Jón Sigurður Gunnarsson fimleikamaður og Birgir Sverrisson frá Lyfjaeftirliti Íslands. Þeir Snorri og Jón fóru yfir feril sinn og sögðu krökkunum mikilvægi þess að hugsa vel um sig, borða rétt, sofa nóg og setja sér markmið til að árangur verði góður. Birgir fór í stuttu máli yfir hlutverk lyfjaeftirlitsins. Krakkarnir voru forvitin og duglegir að spyrja og voru algjörlega til fyrirmyndar. ÍSÍ færði öllum skólunum nokkrar gerðir af boltum að gjöf ásamt lestrarbókum um Ólympíuhreyfinguna. ÍSÍ þakkar nemendum fyrir þátttökuna og starfsliði skólanna fyrir þeirra framlag en síðast en ekki síst Sigríði Láru framkvæmdastýru HSV fyrir hennar aðstoð og jákvæðni.

Myndir frá deginum má sjá hér á myndasíðu ÍSÍ.

Hlaupið er styrkt af verkefninu Íþróttavika Evrópu og verða þrír þátttökuskólar sem ljúka hlaupinu fyrir 30. september og skila inn upplýsingum til ÍSÍ dregnir út úr potti. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Þeir skólar sem ljúka hlaupinu eftir 30. september geta eftir sem áður skilað inn upplýsingum og fengið send viðurkenningaskjöl, en gert er ráð fyrir að allir skólar hafi lokið hlaupinu fyrir árslok 2019.

ÍSÍ hvetur þá skóla sem eiga eftir að hlaupa að taka þátt.

Myndir með frétt