Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Fundur norrænna íþrótta- og ólympíusamtaka

13.09.2019

Fundur norrænna íþrótta- og ólympíusamtaka stendur yfir  þessa dagana á Hótel Örk í Hveragerði. Fundurinn er árlegur og skiptast löndin á að vera gestgjafar. Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, stýrir fundinum. 

„Það er afar mikilvægt fyrir okkur hjá ÍSÍ að taka þátt í norrænu samstarfi og hafa vettvang sem þennan til að bera okkur saman við norræn systursamtök okkar, ræða sameiginleg hagsmunamál, stefnumarkandi málefni, tækifæri og framtíðarsýn. Á fundum sem þessum gefst gott tækifæri til að ræða í þaula það sem er efst á baugi hverju sinni og miðla þekkingu og reynslu. Við, hér á Íslandi, njótum ekki síst góðs af þeirri umræðu því að starfsfélagar okkar hafa í flestum tilfellum staðið frammi fyrir sömu áskorunum og við, eru jafnvel nokkrum skrefum á undan og geta miðlað mögulegum úrlausnum.“

Á fundinum eru tekin fyrir málefni sem brenna á íþróttahreyfingunni hverju sinni. Að þessu sinni er fjallað um hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum, jafnrétti í íþróttum, rafleiki, þátttöku í íþróttum og hvernig auka má þátttöku barna frá tekjulágum heimilum, öryggi í íþróttum, samvinnu við stjórnvöld, svo eitthvað sé nefnt. Í dag fengu fundargestir einnig fyrirlestur frá Margréti Lilju Guðmundsdóttur frá Rannsóknum og greiningu um íþróttir og forvarnir (The Icelandic Model).

Í hópi fundargesta er Niels Nygaard, varaforseti Evrópusambands ólympíunefnda (EOC), sem einnig er forseti Danska íþrótta- og Ólympíusambandsins og eru þá tveir stjórnarmeðlimir EOC á fundinum en Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ á einnig sæti í stjórn EOC. 

Fundinn sitja af hálfu ÍSÍ Lárus L. Blöndal forseti, Sigríður Jónsdóttir 1. varaforseti, Hafsteinn Pálsson 2. varaforseti, Þráinn Hafsteinsson formaður Almenningsíþróttasviðs, Viðar Garðarsson formaður Þróunar- og fræðslusviðs, Þórey Edda Elísdóttir formaður Afreks- og Ólympíusviðs, sviðsstjórar fagsviðanna og skrifstofustjóri. 

Samhliða fundinum er fundur norrænna samtaka um íþróttir fatlaðra og funda báðir hóparnir saman um nokkur málefni. Næsti fundur verður haldinn á Álandseyjum árið 2020.

Myndir með frétt