Ólympíufari og afreksíþróttakona í framkvæmdastjórn ÍSÍ
Dominiqua Alma Belányi og Þórey Edda Elísdóttir stunduðu báðar íþróttir af krafti frá unga aldri. Þórey Edda keppti þrívegis á Ólympíuleikum og Dominiqua á Evrópu- og heimsmeistaramótum. Nú sitja þær í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Í nýjasta blaði ÍSÍ frétta er viðtal við þær og má lesa blaðið hér.
Dominiqua Alma Belányi segir að hana hafi alltaf langað til að hafa áhrif á sviðum íþrótta og koma sér meira og meira inn í íþróttastarfið á Íslandi. „Það mætti segja að sæti mitt í framkvæmdastjórn ÍSÍ hafi verið óvænt en ótrúlega skemmtilegt tækifæri sem ég ákvað að grípa. Eftir að Íþróttamannanefnd ÍSÍ var endurvakin var eitt af helstu markmiðum nefndarinnar að fá kosningarétt og sæti í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Þannig fá raddir íþróttafólks að heyrast. Ég tók að mér formannssæti í nefndinni og eftir að nefndin fékk sæti samþykkt á Íþróttaþingi ÍSÍ 2019 fékk ég sæti í framkvæmdastjórn. Það er mjög skemmtilegt en á sama tíma krefjandi hlutverk að vera formaður Íþróttamannanefndar. Ég hef fengið tækifæri til þess að taka þátt á ráðstefnum og fundum hérlendis og erlendis sem hafa verið lærdómsrík og stækkað tengslanet mitt töluvert“, segir Dominiqua. Hún ráðleggur einnig ungum konum sem langar að hafa áhrif á sviði íþrótta að taka af skarið og þora. „Þora að láta vita af sér, þora að tjá skoðanir sínar, þora að ganga á eftir því sem þær vilja gera. Þær eiga að grípa tækifærin sem að bjóðast því þau geta opnað svo margar dyr og ný tækifæri, verkefni og áskoranir þar sem farið er út fyrir þægindarammann og þá fara hlutirnir að gerast“.
Þórey Edda Elísdóttir er reynslumikil íþróttakona, m.a. er hún Íslandsmethafi í stangarstökki og þrefaldur Ólympíufari. Hún hefur mikinn áhuga á íþróttum og finnst gaman að geta nýtt reynslu sína úr íþróttaheiminum áfram og haft jákvæð áhrif á umgjörð hennar. „Ég sé tvímælalaust mjög mikinn mun á íslensku íþróttalífi nú og þegar ég var upp á mitt besta. Aðstaðan hefur tekið stökkbreytingum og ef ég nefni sem dæmi stangarstökk þá var bara nánast ekkert hægt að stunda þá íþrótt á Íslandi nema af því ég hafði góða fjölskyldu og þjálfara innan handar sem nenntu að hjálpa mér að drösla öllum stangarstökksbúnaði út úr geymslu til að nota á einni æfingu. Sama má auðvitað segja um fimleika en fimleikahús voru auðvitað ekki til þegar ég var að æfa greinina. Það hafa einnig loksins orðið miklar breytingar hjá Afrekssjóði en upphæðir sem hafa runnið í hann frá ríkinu síðustu ár eru margfaldar miðað við þegar ég var að æfa og keppa. Þessar upphæðir gera sérsamböndunum mun betur kleift nú en áður að halda uppi afreksstarfi“, segir Þórey Edda. Hún segist vilja sjá ennþá betri aðstöðu til íþróttaiðkunar á komandi tímum, að fólk á öllum aldri um allt land geti stundað íþróttir við góða aðstöðu. Hún hvetur foreldra til að styðja börnin sín í íþróttaiðkun sinni og gleðjast með þeim. Alls ekki setja óþarfa pressu eða kröfur á þau. „Þegar ég hugsa til baka var það nákvæmlega þannig sem foreldrar mínir komu fram við mig án þess að þau hefðu nokkuð verið að gera sér grein fyrir því. Vendipunkturinn á mínum íþróttaferli var þegar besta vinkonan hætti í fimleikum og ég átti samtal við móður mína um hvort ég ætti samt að halda áfram. Hún hvatti mig til þess. Ef hún hefði sýnt efasemdir eða sagt mér að hætta hefði ég tvímælalaust gert það. Það er ekkert víst að leiðin hefði legið í frjálsar íþróttir og á þrenna Ólympíuleika ef svo hefði ekki verið. Núna reyni ég á sama hátt að vera til staðar fyrir börnin mín“.