Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
13

Göngum í skólann sett í Hofsstaðaskóla

04.09.2019

Göngum í skólann var sett í Hofsstaðaskóla í Garðabæ í morgun að viðstöddum góðum gestum.

Hafdís B. Kristmundsdóttir skólastjóri byrjaði á því að bjóða nemendur og gesti velkomna. Þráinn Hafsteinsson, formaður Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ tók síðan við og flutti stutt ávarp og stjórnaði dagskrá. Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, flutti skemmtilegt ávarp þar sem hún kenndi viðstöddum 3 tákn á táknmáli, göngum, skóli og heim, en það vakti mikla lukku. Því næst tók Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar til máls en hann hvatti börnin til að vera dugleg að ganga í skólann og sérstaklega með vinum sínum. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu gaf krökkunum góð ráð í umferðinni og bað börnin um að passa að foreldrar væru ekki símanum við aksturinn. Því næst hvatti Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu nemendur og gesti til að velja öruggustu leiðirnar í og úr skóla. Kór Hofsstaðaskóla ásamt nemendum söng eitt lag áður en trúðurinn Wally frá Sirkusi Íslands steig á stokk. Að lokinni dagskrá gengu aðstandendur verkefnisins, ráðherra, bæjarstjóri, lögreglustjóri, nemendur, starfsfólk og aðrir gestir verkefnið af stað með viðeigandi hætti með því að ganga lítinn hring í nærumhverfi skólans.

Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. Með þessu er ætlunin að hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna en hreyfing vinnur m.a. gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Þar að auki er markmiðið að draga úr umferð við skóla og stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf.

Í ár tekur Ísland þátt í 13. skipti í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi. Hér á landi fer skráning skóla mjög vel af stað og auðvelt er fyrir skóla að bætast í hópinn. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 2. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer Göngum í skólann verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 2. október.

Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Embætti landlæknis, ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

Vefsíða verkefnisins er www.gongumiskolann.is.

Myndir frá setningu Göngum í skólann 2019 má sjá á myndasíðu ÍSÍ hér.

Myndir með frétt